Landsmenn eru nú margir í ferðahugleiðingum enda sólin að hækka á lofti og sumarfríin að byrja. Það bregður því mörgum við þegar þeir koma að læstum dyrum en víða um land hafa búðir, veitingastaðir, hótel og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustugeiranum mörg hver þurft að skella í lás eða skerða afgreiðslutíma.
Sigurður Magnússon, leiðsögumaður Arctic Adventures, líkir þessu ástandi við það sem var uppi fyrir 10 til 15 árum þegar sumarið var að byrja. Hann er sjálfur nýfarinn að ferðast um landið með hóp erlendra ferðamanna og býst við að afgreiðslutíminn fari að breytast bráðlega.
Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, segir stöðuna mjög skiljanlega enda ferðaþjónustugeirinn búinn að taka á sig mikinn skell. „Það er alveg eðlilegt að þegar vélin er búin að vera í hægagangi núna í eitt og hálft ár að það taki einhvern tíma að keyra allt aftur í gang, það gerist ekki bara á einni nóttu.
Starfsfólk hefur horfið til annarra starfa, það er í mörgum tilfellum erfitt að fá starfsfólk, þannig að þetta eru svona margir samverkandi þættir sem gera það að verkum að þegar fólk rennir upp að veitingastað að þá er hann lokaður,“ segir Skapti.
Skapti, eins og margir aðrir í ferðaþjónustugeiranum, er þó jákvæður og telur hann afgreiðslutíma munu lengjast og þjónustuframboð aukast eftir því sem líða tekur á sumarið.
„Við erum mjög bjartsýn fyrir komandi sumri, það er að létta yfir öllu. [...] Greinin er að fara aftur hægt og rólega í gang. Þegar árið verður gert upp þá vonum við bara að viðspyrnan verði hraðari en ella.“