Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem byggir á gögnum um flugumferð og bólusetningar í Bandaríkjunum, benda til þess að Covid-19 dreifist mikið með flugferðum fólks.
Niðurstöðurnar voru birtar í virta vísindaritinu Nature Scientific Reports á miðvikudag.
Þær undirstrika mikilvægi þess að passa upp á landamærin þegar kemur að dreifingu smita, segir Anna Sigríður Islind í samtali við mbl.is.
Anna Sigríður sá um þann hluta rannsóknarinnar sem laut að notkun og greiningu á flugumferðargögnunum ásamt samstarfskonu sinni Maríu Óskarsdóttur en þær eru lektorar við tölvunarfræðideild HR.
Spurð hvort vilji Bandaríkjamanna til bólusetningar sé ráðandi þáttur í niðurstöðum rannsóknarinnar segir Anna Sigríður að svo sé ekki. Þau hafi í raun verið að fylgjast með því hvernig veiran dreifðist um Bandaríkin í annarri bylgjunni og hvort nýjum smitum myndi fækka eftir því sem fleiri voru bólusettir.
„Það sem við sjáum í þessari grein er að í Bandaríkjunum voru bólusetningar hafnar á meðan smit voru í gríðarlegum veldisvexti. Það sést alveg svart á hvítu að þeir hafi verið of seinir að byrja að bólusetja til að hafa áhrif á þá bylgju sem var í gangi þá. Þar að auki var of lítil hröðun í bólusetningum,“ segir Anna Sigríður.
Að sögn Önnu Sigríðar var það skortur á bóluefni sem olli ofangreindum hægagangi í bólusetningum í fyrstu bylgju þar ytra.
„Vandamálið var raunverulega bara aðgangur að bóluefni. Það var bara allt of lítið bóluefni til fyrir heimsbyggðina til þess að það væri hægt að bólusetja af þeim krafti sem þurfti í Bandaríkjunum miðað við öll þau smit sem voru,“ segir hún.
Anna Sigríður segir mikilvægt að þeir einstaklingar sem hafa verið bólusettir takmarki ferðalög sín og gæti vel að sóttvörnum þar til bólusetningin hefur náð fullri virkni og nefnir hún tilfelli Daða og Gagnamagnsins sem dæmi um það.
„Þau eru bólusett og fara svo til Rotterdam, koma svo aftur heim og Árný greinist smituð. Þetta er bara þriggja vikna tímabil. Þetta finnst mér ágætisdæmi um það sem við erum að segja í þessari grein, að þetta tekur sinn tíma og á meðan bólusetningin er að ná virkni þá þarf fólk að halda áfram að gæta að sóttvörnum. Það gleymdist kannski svolítið í Bandaríkjunum og við viljum passa að gleyma því ekki hér á Íslandi,“ segir hún.
Þegar blaðamaður innir eftir því hvort hægt sé að heimfæra niðurstöður rannsóknarinnar yfir á Ísland svarar Anna Sigríður því að líkanið sem notað hafi verið í rannsókninni myndi sennilega ekki standa sig vel með íslensk smit- og bólusetningargögn.
„Með flest svona stærðfræðileg líkön þá þarf rosalega mikil gögn til að vinna úr og þótt við Íslendingar séum með gríðarlega stórt hjarta þá erum við því miður ekkert sérlega mörg og því ekki með mikinn smitfjölda til að vinna úr.“
Þótt erfitt sé að heimfæra niðurstöðurnar yfir á Ísland geti Íslendingar samt sem áður lært margt af þeim.
„Á þessum tíma voru Bandaríkin alveg lokuð. Svo það voru nánast engin flug inn eða út úr landinu en það var mikið um flug á milli ríkja. Við skiptum Bandaríkjunum í níu hluta og fylgdumst með hreyfanleika fólks milli ríkja til að sjá hvernig smitin dreifast á milli þeirra og í ljós kom að veiran er að dreifast mikið út með flugtraffíkinni. Ef við ætlum að taka eitthvað frá þessu þá er það að huga að landamærunum okkar. Við getum kannski verið grímulaus hér innanlands en við þurfum að passa að smitin leki ekki inn um landamærin,“ segir hún.
Að sögn Önnu Sigríðar stendur nú yfir vinna að nýrri rannsókn sem nær til Evrópulandanna, þar á meðal Íslands. Sú rannsókn sé þó með aðeins öðru sniði en þjóni sama tilgangi og fyrri rannsóknin.
„Við erum að nota gögn frá Evrópu í heild sinni og greinum við hvert land fyrir sig. Við erum meðal annars að skoða það hvernig mismunandi bólusetningaraðferðir hafa verið notaðar í mismunandi löndum og hvaða áhrif þær geta haft á fjölda nýrra smita. Sum lönd hafa til að mynda byrjað að bólusetja þá sem eru mikið úti í samfélaginu eins og til dæmis kennara á meðan aðrir hafa byrjað á því að bólusetja þá allra elstu eða veikustu.
Spurningin er því hvað við getum lært af þeim bólusetningaraðferðum sem notaðar hafa verið fram að þessu til að sjá hvaða aðferðir eru hagkvæmastar fyrir sem flesta, annars vegar fyrir næstu mögulegu bylgju og hins vegar næstu mögulegu farsótt,“ segir Anna Sigríður.
Hún segir þverfagleika skipta miklu máli þegar kemur að viðamiklum rannsóknum sem þessum en að rannsóknunum tveimur komu ekki einungis tölvunarfræðingar eins og Anna Sigríður og María, heldur einnig eðlisfræðingar.
„Það er gríðarlega mikilvægt að vinna ekki bara innan síns sérsviðs heldur að sameina krafta mismunandi vísindamanna til að reyna að stuðla að aukinni þekkingu um hluti eins og Covid-19. Þar geta allir lagt hönd á plóg.“