Tveir nýir oddvitar valdir í dag

Tveir bjóða sig fram til forystu í hvoru kjördæmi.
Tveir bjóða sig fram til forystu í hvoru kjördæmi. Ljósmynd/Samsett

Tveir nýir oddvitar Sjálfstæðisflokksins verða valdir í prófkjörum flokksins í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi í dag.

Tveir bjóða sig fram til forystu í hvoru kjördæmi, en sitjandi oddvitar hverfa báðir af þingi í haust.

Í Norðausturkjördæmi stendur oddvitaslagurinn milli Njáls Trausta Friðbertssonar þingmanns og Gauta Jóhannessonar, forseta sveitarstjórnar Múlaþings. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur verið oddviti flokksins í kjördæminu.

Sjö til viðbótar gefa kost á sér í prófkjörinu. Kosið verður á fjórtán stöðum í kjördæminu og má nálgast kjörstaði og afgreiðslutíma hér.

Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn má eiga von á fyrstu tölum upp úr klukkan tíu í kvöld, en búast má við lokatölum upp úr miðnætti og verður tilkynningunni streymt á Facebook-síðu flokksins.

Í Suðurkjördæmi keppast Vilhjálmur Árnason þingmaður og Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, um efsta sætið.

Páll Magnússon oddviti tilkynnti fyrr á árinu að hann sæktist ekki eftir sæti á lista, en hann hefur átt erfitt uppdráttar allt frá því hann forðaðist að lýsa yfir stuðningi við framboð flokksins í bæjarstjórnarkosningum í Vestmannaeyjum þegar klofningsframboð ósáttra sjálfstæðismanna bauð þar fram.

Sjö til viðbótar gefa kost á sér. Kosið verður á fjórtán stöðum víðs vegar um kjördæmið víðfeðma, en kjörstaði og afgreiðslutíma má finna hér. Birta á fyrstu tölur klukkan átta í kvöld en gert er ráð fyrir að talningu ljúki skömmu eftir miðnætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert