Um nokkurt skeið hafði Beggi Morthens, tónlistarmaður og kaupmaður í Kailash, ekki verið eins og hann á að sér en tók Íslendinginn bara á það, eins og hann kemst að orði. „Ég hristi þetta bara af mér!“ Hann kveðst fyrir löngu hafa átt að vera búinn að leita læknis. „Undir það síðasta var ég farinn að sofa sitjandi; leið alltaf eins og ég væri að drukkna ef ég lá út af. Ef það er ekki til marks um að eitthvað sé að þá veit ég ekki hvað.“
Skýringin reyndist vera að lungun voru full af vatni sem aftur tengdist gáttaflökti. Ekki nóg með það, hann greindist líka með krabbamein í nýra. „Því átti ég alls ekki von á en svona getur líkaminn blekkt mann sem sýnir hversu mikilvægt það er að láta líta á sig ef maður kennir sér meins.“
Beggi lifir samkvæmt aðferðafræði búddismans og hefur þurft á allri sinni ró og æðruleysi að halda í veikindunum undanfarna mánuði. „Algjörlega og alla leið,“ segir hann, „og þegar á móti blæs er mikilvægt að muna og sætta sig við að hlutirnir eru eins og þeir eru en ekki eins og maður vill að þeir séu. Sumir segja líka að veikindi slái á hrokann í manni. Í öllu falli minnir það mann á þá búddísku speki að við eigum bara daginn í dag. Þegar maður veikist þarf maður að gera sér grein fyrir því hvar maður er staddur og anda síðan inn og anda út.“
Hann tekur myndlíkingu, lífshjólið. „Stundum er maður í miðjunni, á fullu að gefa af sér, en stundum á jaðrinum og þarf bara að þiggja. Lærdómur minn af þessum veikindum er sá að stundum er bara allt í lagi að þiggja.“
– Hvernig hefurðu það í dag?
„Miklu betra. Það er búið að hífa upp trollið. Flöktið er farið og ekkert vatn í lungunum lengur. Þá er búið að fjarlægja hluta af nýranu. Læknarnir eru bjartsýnir en ég er alls ekki kominn fyrir vind. Krabbamein er þeirrar náttúru að það hefur einstakt lag á að læðast aftan að manni. En ég er þakklátur fyrir það sem ég hef og það sem ég hef fengið til baka. Ég væri ekki til stórræðanna í þunna loftinu í Himalajafjöllunum núna; rétt dríf hringinn í kringum Hvaleyrarvatn með hundinn. Það gefur mér samt rosalega mikið. Það er ekki langt síðan við hjónin misstum góða vinkonu okkar úr krabbameini, svo kemur þetta í bókhaldið hjá manni. Og þá er uppnám í bókhaldinu. En svona er bara staðan. Ég bað ekki um þessi veikindi, frekar en aðrir, en verð að takast á við þau. Þá er gott að búa að búddismanum.“
Nánar er rætt við Begga um búddisma, sálarró, tónlist, æskuna og fleira í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.