Yngri konur tryggðar fyrir mögulegum aukaverkunum

Frá bólusetningu framlínustarfsfólks gegn Covid-19. Ungar konur sem voru í …
Frá bólusetningu framlínustarfsfólks gegn Covid-19. Ungar konur sem voru í forgangshópum áður en takmörk voru sett á notkun AstraZeneca fengu sumar hverjar sprautu af efninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Konur sem eru yngri en 55 ára og fengu bólusetningu með bóluefni AstraZeneca eru tryggðar hvað mögulegar aukaverkanir við bólusetningu varðar þar sem yfirvöld buðu þeim bólusetninguna, jafnvel þó ekki sé lengur mælt með því að ungar konur fái bóluefnið. Þetta kemur fram í svari Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við fyrirspurn mbl.is. 

Þær bólusetningar gegn Covid-19, sem einstaklingum eru boðnar af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum falla því undir sjúklingatryggingu. Ef konum undir 55 ára er boðin bólusetning með bóluefni Astra-Zeneca, t.d. vegna þess að þær fengu fyrri sprautuna áður en aldursviðmiðinu var breytt, fellur bólusetningin þar undir,“ segir í svarinu. 

Svar SÍ snýr að mögulegri bótaskyldu úr sjúklingatryggingu, sem er sérstök trygging skv. lögum nr. 111/2000, sem nær til tjónsatvika vegna rannsókna og læknismeðferða.

Bólusetning með bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 er nú takmörkuð við eldra fólk vegna mjög sjaldgæfra aukaverkana sem hafa komið upp hjá yngra fólki, sérstaklega konum. Áður en slík takmörk voru sett á hafði yngra fólk fengið bóluefnið. Í seinni bólusetningu mátti fólkið svo velja hvort það fengi bóluefni AstraZeneca eða bóluefni Pfizer. Flestir ákváðu að fá bólusetningu með efni AstraZeneca aftur. 

Í samtali við Fréttablaðið á miðvikudag sagðist ung kona sem hefur fengið bóluefni AstraZeneca hafa spurt stofnanir ítrekað út í það hvort hún væri tryggð eins og aðrir þrátt fyrir að ekki væri mælt með bóluefninu fyrir konur sem eru yngri en 55 ára gamlar. 

Bólusetningar sem einstaklingum eru boðnar falla undir sjúkratryggingu

Miðað við svar Sjúkratrygginga eru hún það, sem og konur í svipaðri stöðu. 

„Aukaverkanir bólusetningar vegna Covid-19 sjúkdómsins eru bættar úr sjúklingatryggingu, ef tjónið nær lágmarksbótafjárhæð samkvæmt lögunum. Vegna tjóna sem verða á árinu 2021 er þetta lágmark kr. 121.047. Nánari upplýsingar um sjúklingatryggingu almennt, sem og sérstaklega vegna Covid-19 bólusetningar, má finna hér,“ segir í svari Sjúkratrygginga.

„Í lögum um sjúklingatryggingu segir að trygging vegna Covid-19 bólusetningar gildi um bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld „leggja til“. Í skýringum með frumvarpi til laganna kemur fram að með þessu sé átt við að íslensk yfirvöld hafi ákveðið að kaupa bóluefnið og bólusetningin sé framkvæmd innan íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Þær bólusetningar gegn Covid-19, sem einstaklingum eru boðnar af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum falla því undir sjúklingatryggingu,“ segir í svarinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka