Atvinnumál eru helstu hugðarefni Guðrúnar Hafsteinsdóttur, verðandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hún segir mikil tækifæri í kjördæminu og að framtíð þess sé glæst með sínar náttúruperlur, öflugan sjávarútveg, framleiðslu og ferðaþjónustu.
Segja má að Guðrún sé alin upp við fyrirtækjarekstur, en hún hefur starfað innan fjölskyldufyrirtækisins, Kjöríss, frá unga aldri og gegnir nú stöðu markaðsstjóra innan fyrirtækisins.
Í vor ákvað hún að stíga inn í landsmálin og óskaði eftir stuðningi í efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Prófkjörið fór fram í gær og hafnaði Guðrún efst á lista, næst á undan Vilhjálmi Árnasyni þingmanni sem einnig sóttist eftir efsta sætinu.
Sem fyrr segir hefur Guðrún komið lengi að rekstri fyrirtækja, en hún var auk þess formaður Samtaka iðnaðarins árin 2014-2020. Guðrún hefur áður rætt um mikilvægi hagsmunabaráttu ólíkra hópa innan samfélagsins og að orðið sjálft, hagsmunabarátta, eigi ekki að líta á sem skammaryrði. „Ég hef oft saknað þess að það sé ekki meiri skilningur á störfum atvinnulífsins inni á þingi,“ segir hún.
Aðspurð segist Guðrún þó ekki munu líta á sig sem sérlegan fulltrúa atvinnurekenda á þingi. „Ég er fulltrúi alls fólks í Suðurkjördæmi. Allir sem eru þjóðkjörnir eru fulltrúar þjóðarinnar, bæði fólks og fyrirtækja,“ segir hún. Ekki megi gleyma því að hagsmunir atvinnulífs og einstaklinga fari saman.
Þótt Guðrún hafi ekki boðið sig áður fram er ekki hægt að segja að Guðrún sé nýgræðingur í stjórnmálum, en hún hefur starfað innan Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði allar götur síðan 1983.
„Ég þekki það að vera í kosningabaráttu sem bakvörður þótt þetta sé í fyrsta sinn sem ég er sjálf í baráttunni,“ segir hún og bætir við að kosningakaffið sem hún hélt í gær hafi sennilega verið það fyrsta sem hún mætir í án þess að hafa sjálf séð um veitingar.
Guðrún segir kosningabaráttuna hafa farið vel fram og hún sé þakklát kjósendum fyrir traustið. Aðspurð segist hún telja kjörið til marks um ákall um nýja ásýnd forystunnar í kjördæminu, án þess að vilja lesa of mikið í það.
Að prófkjöri loknu segir Guðrún að við taki nokkurra daga hvíld, en ekki löng því síðan taki við að undirbúa kosningabaráttuna.