Bendir á gagnsemi mislægra gatnamóta

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hari

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir það skýrt að færri umferðarslys verði á mislægum gatnamótum enda mætist þar ekki bílar úr öllum áttum.

Í pistli á heimasíðu sinni bendir Sigríður á þetta og til stuðnings máli sínu notast hún við hitamynd af vef Samgöngustofu en þar sést skýrt að þar sem eru mislæg gatnamót verða töluvert færri umferðarslys en á annars konar gatnamótum. Um mislægu gatnamótin hefur Sigríður dregið grænan hring en rauðan um hin þrjú þar sem slysin eru töluvert fleiri.

Myndin sýnir fern gatnamót. Á einu þeirra, þar sem eru …
Myndin sýnir fern gatnamót. Á einu þeirra, þar sem eru mislæg gatnamót, sýnir hitamyndin að þar verði færri slys en á hinum þremur. Skjáskot/sigridur.is

„Gatnamót Miklubrautar við Skeiðarvog/Réttarholtsveg eru mislæg en hin ekki. Götur sem skerast eru aðskildar og þau fáu óhöpp sem verða eru ekki alvarleg enda bílar ekki lengur að mætast úr öllum áttum,“ segir Sigríður og bendir á að árið 2002 hafi mbl.is fjallað um að þar hafi tjónum fækkað um 90% eftir að gatnamótin voru gerð mislæg.

Segir Reykjavíkurborg hafa vanrækt að greiða fyrir umferð

„Þrátt fyrir að þetta liggi fyrir hefur Reykjavíkurborg um árabil algerlega vanrækt að greiða fyrir umferð, auka öryggi og draga úr mengun með gerð mislægra gatnamóta,“ segir Sigríður og bendir á að grófasta dæmið sé líklega af gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar þar sem hún segir að borgin hafi dregið lappirnar árum saman.

„Auðvitað er misjafnt hve góðar aðstæður eru til gerðar mislægra gatnamóta, meðal annars vegna nálægrar byggðar. Með réttri hönnun þurfa þau hins vegar ekki að rísa hátt í landinu og hægt er að taka betra tillit til gangandi og hjólandi vegfarenda en á ljósastýrðum gatnamótum.“

Hitamynd af slysum við þrenn gatnamót Hringbrautar. Sigríður bendir á …
Hitamynd af slysum við þrenn gatnamót Hringbrautar. Sigríður bendir á að mislægu gatnamótin við Snorrabraut skeri sig skýrt frá hinum hvað slys varðar. Skjáskot/sigridur.is

Þá segir Sigríður að þrátt fyrir þessar fyrir skýru upplýsingar hafi mislæg gatnamót ekki notið sannmælis hjá borgaryfirvöldum.

„Þingmenn Reykjavíkur verða að láta sig þetta varða við afgreiðslu fjárlaga næstu árin. Ég mun í öllu falli áfram gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert