Bíl stolið meðan eigandi brá sér inn í búð

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bíl var stolið í Hlíðunum í Reykjavík í gærkvöldi eftir að ökumaður hafði skilið hann eftir í gangi meðan hann brá sér inn í verslun. Bíllinn fannst rúmum tveimur tímum síðar og var þjófurinn þá sofandi undir stýri, í annarlegu ástandi sökum áfengis og fíkniefna. Þetta segir í dagbók lögreglu.

Þrír voru handteknir vegna innbrots í hús í miðborg Reykjavíkur. Þá var einn handtekinn vegna heimilisofbeldis og eignaspjalla í Hlíðunum.

Ökumenn koma mjög við sögu í dagbók lögreglu eins og jafnan um helgar.

Í miðborginni var ökumaður stöðvaður við akstur og þegar hann var beðinn um skilríki framvísaði hann fölsuðu ökuskírteini. Kom í ljós að maðurinn var án ökuréttinda. Var hann kærður fyrir akstur án ökuréttinda, sem og skjalafals.

Í Kópavogi var maður stöðvaður við akstur og reyndist hann undir áhrifum áfengis, án ökuréttinda, bíll hans á röngum skráningarmerkjum og ótryggður í þokkabót.

Þá velti ölvaður ökumaður bíl sínum á Vatnsenda, án þess þó að slasast. Var hann handtekinn og gistir fangageymslur þar til rennur af honum.

Í Árbæ var ökumaður stöðvaður á 123 kílómetra hraða, en hann reyndist jafnframt ölvaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka