Dúx MR með hæstu einkunn í sögu skólans

Vigdís Selma Sverrisdóttir, dúx MR 2021.
Vigdís Selma Sverrisdóttir, dúx MR 2021. Ljósmynd/Aðsend

Vigdís Selma Sverrisdóttir útskrifaðist á föstudag úr Menntaskólanum í Reykjavík og hlaut hún 9,93 sem er sú hæsta í sögu skólans. Vigdís, sem er stúdent af náttúrufræðideild I, segir í samtali við mbl.is að vinnusemi hafi lagt grunninn að þessari sögulegu einkunn.

Vigdís telur síðustu önnina hafa verið þá skemmtilegustu en henni hafi þótt afar gaman að komast aftur í skólann í upphafi árs eftir miklar lokanir vegna kórónuveirufaraldursins. Henni finnst staðnám töluvert skemmtilegra en fjarnámið og því hafi endurkoma þess á síðustu önninni verið mikill léttir.  

Fékk 10 í öllu nema einu

Meðaleinkunnin 9,93 er sem fyrr segir sú hæsta í sögu skólans en Vigdís fékk 10 í einkunn á öllum stúdentsprófunum að undanskildu stúdentsprófi í íslenskum stíl en þar fékk hún 9. Vigdís segist hafa lagt mikið á sig á skólagöngunni og sinnt henni af heilindum, það hafi lagt grundvöllinn að þessum góða árangri.

Til að fagna áfanganum fór Vigdís út að borða með fjölskyldunni í gær en verðlaunin frá skólanum mun hún sækja í næstu viku. Hún segist afar ánægð að hafa náð að dimmitera með bekkjarfélögunum síðasta kennsludaginn. Árshátíðir nemendafélaganna og tolleringarnar hafi verið hápunktar skólagöngunnar.

Ekkert ákveðið um framhaldið

Aðspurð um ráð fyrir yngri nemendur segir Vigdís það einfaldlega borga sig að hafa gaman, reyna sitt besta og njóta áranna.

Framtíðin er engan veginn meitluð í stein hjá Vigdísi sem segist þó líklega ætla að halda á svið raungreina eða náttúruvísinda, þar liggi áhuginn. Ekkert liggi þó ljóst fyrir varðandi háskólanám, hvorki námsgrein né land.

190 nemendur brautskráðir

Hundrað og níutíu nemendur voru brautskráðir frá Menntaskólanum á föstudag, en þetta er í 175. sinn sem skólanum er slitið. Sökum sóttvarnareglna var útskrifað við tvær athafnir í Háskólabíói og gestafjöldi mjög takmarkaður.

Í samtali við mbl.is segir Einar Hreinsson konrektor skólans að skólahald í vetur hafi gengið merkilega vel í ljósi aðstæðna og kennarar og nemendur sýnt mikla hugmyndaauðgi þegar færa þurfti alla kennslu ítrekað á netið, þrátt fyrir að skólinn verði seint þekktur fyrir nýjungagirni í kennsluháttum.

Þrír reyndir kennarar láta nú af störfum við skólann og voru þeir heiðraðir við útskrift. Eru það Árni Indriðason sögukennari til áratuga, Auðun Sæmundsson stærðfræðikennari og Lára Sveinsdóttir íþróttakennari og fyrrverandi ólympíufari fyrst íslenskra kvenna.

Menntaskólinn í Reykjavík.
Menntaskólinn í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka