Hafði aldrei talað við Íslending

Helga Kristín smellti í sjálfu fyrir framan íslenskan ferðahóp, en …
Helga Kristín smellti í sjálfu fyrir framan íslenskan ferðahóp, en hún skipuleggur hópferðir til Delft í Hollandi og fyrir erlenda ferðamenn til Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Ferðamálafrömuðurinn Helga Kristín Friðjónsdóttir býður erlendum ferðamönnum til Íslands og Íslendingum til Delft í Hollandi. 

Ég byrjaði í ferðabransanum í Hollandi og fyrirtækið mitt er þar. En svo kom Covid og allt stöðvaðist og þá flutti ég ásamt manni mínum og syni heim til Íslands,“ segir Helga Kristín en hún bjó sex ár í Delft í Hollandi og þar áður áratug í Kaupmannahöfn.

Eins og amma gamla

Þegar Helga Kristín hafði búið ár í Hollandi stofnaði hún fyrirtækið Iceland Unwrapped.

„Ég fór að kynna Ísland fyrir útlendingum og fór að senda Hollendinga, Bandaríkjamenn, Belga, Breta og Dani til Íslands. Ég skipulegg persónulegar ferðir og ræði mjög mikið við fólk um ferðina. Svo geri ég plan í samstarfi við fólkið og allir fá sína eigin vefsíðu. Ég tengi svo fólk við Íslendinga og menninguna hér, en í þessum ferðum er farið hægt í sakirnar og stoppað lengur á hverjum stað. Ég ráðlegg fólki kannski að lesa bók frá svæðinu, til dæmis eftir Laxness eða Arnald, eða finn tónlist sem passar hverjum stað. Ég er svolítið eins og amma gamla sem passar upp á fólkið sitt,“ segir Helga Kristín og segist einnig bjóða fólki upp á að borða með íslenskum fjölskyldum í heimahúsum.

„Ég er með fjórtán heimili allt í kringum Ísland sem taka fólk heim í mat og er það rosalega vinsælt. Það er svo skemmtileg upplifun að enda kannski heima hjá einhverjum í nýveiddri soðinni ýsu. Hugmyndin kviknaði þegar ég hitti Bandaríkjamann í Hollandi sem hafði farið fjórum sinnum til Íslands en aldrei talað við Íslending fyrr en hann hitti mig. Mér fannst það svo mikil synd því Íslendingar eru svo hlýir og góðir innst inni. Þannig að vinkillinn í fyrirtækinu er að tengja fólk saman,“ segir Helga Kristín og segist einnig skipuleggja ferðir fyrir hópa til Delft í Hollandi, gamla heimabæjar hennar.

„Ég skipulegg ferðir í báðar áttir fyrir stærri hópa, til dæmis fyrirtæki sem eru að heimsækja önnur fyrirtæki. Ég skipulagði til dæmis ferð til Delft fyrir þjóðdansahóp að norðan og einnig ferð fyrir íslenskan kór.“

Delft hefur allt

„Amsterdam hefur alltaf verið vinsælasta borgin en hefur verið mettuð af ferðamönnum. Delft er eins og lítil Amsterdam og í miðbænum er bílaumferð bönnuð. Þarna búa bara hundrað þúsund manns og umhverfið er vinalegt, fullt af síkjum og gömlum kirkjum. Það er hægt að labba allt og þarna er rólegt en fullt af veitingastöðum. Það er stutt að ferðast með lest á milli borga þannig að þetta er góð staðsetning fyrir þá sem vilja skoða Holland,“ segir Helga Kristín og segir borgina henta vel fyrir hópa.

Í þessari hundrað þúsund manna borg er engin bílaumferð í …
Í þessari hundrað þúsund manna borg er engin bílaumferð í miðbænum og hægt að ganga og hjóla allar sínar ferðir. Síkin setja svip sinn á bæinn. Ljósmynd/Helga Kristín

„Þarna er antíkmarkaður, blómamarkaður og ostamarkaður um helgar. Það er hægt að fara í hjólaferðir og bátsferðir með kampavíni og jarðarberjum,“ segir Helga Kristín.

Yfir þúsund ára gamlar kirkjur má finna í Delft sem …
Yfir þúsund ára gamlar kirkjur má finna í Delft sem er lítil og vinaleg borg. Ljósmynd/Helga Kristín

„Borgin er þekkt fyrir að vera konungsborg en þarna fara útfarir konungsfólksins fram, en gamla kirkjan þarna er frá árinu þúsund en nýja kirkjan frá árinu 1100. Borgin er líka þekkt fyrir postulín en Delft er ein fallegasta borg Hollands. Hún hefur allt,“ segir Helga Kristín og bendir á Facebook-síðu sína, Töfrar Delft. Einnig er hægt að skoða heimasíðurnar helgastina.com og icelandunwrapped.com.

Kvöldbirtan er engu lík á fallegu sumarkvöldi og rómantíkin liggur …
Kvöldbirtan er engu lík á fallegu sumarkvöldi og rómantíkin liggur í loftinu. Ljósmynd/Aðsend

Nánar má lesa um dásemdir Delfts í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 




Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert