Líklega verði rætt um afgreiðslutíma

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir að afstaða um afgreiðslutíma veitinga- og skemmtistaða að loknum faraldri kórónuveirunnar hafi ekki enn verið tekin hjá borgarráði. Þó þyki henni mjög líklegt að slíkt samtal muni fara fram á næstu misserum.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is að tölfræðigögn sýni svart á hvítu þá jákvæðu þróun í fjölda afbrota sem hefur átt sér stað eftir að afgreiðslutími veitinga- og skemmtistaða var styttur vegna faraldursins.

Þá mun málum sem tengjast ofbeldi og öðru slíku hafa fækkað um 50-60%.

Aldrei gert í tómarúmi

„Þegar við förum til baka þá þurfum við og viljum skoða lærdóminn af Covid á miðborgina og heildina en það verður aldrei gert í einhverju tómarúmi, það verður alltaf gert í einhverju samtali við alla,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is í dag.

Samtalið verði að sögn Þórdísar að taka við alla hlutaðeigandi. Þá þurfi, til að mynda, að ræða við ungt fólk, hagaðila, íbúa í miðborginni og lögregluna.

Þá segir Þórdís að nú sé komin löng reynsla á styttri afgreiðslutíma og alltaf verði litið til þessarar reynslu og þeirrar tölfræði sem birtist okkur núna þegar afstaða verður tekin í þessum efnum.

„En þetta hefur ekkert verið rætt formlega og engin afstaða tekin í neina átt og mun ekki verða tekin í tómarúmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka