Þrír stúdentar luku námi af tveimur námsbrautum við brautskráningu frá Menntaskólanum við Hamrahlíð í Reykjavík sl. föstudag. Brautskráðir nemar voru alls 193, flestir af opinni braut eða 98. 40 luku námi af 40 af náttúrufræðibraut. Átján nemendur voru brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn var yfir 9,00.
Að þessu sinni var dúx skólans Rakel Ösp Skúladóttir, nemandi á opinni braut, með framúrskarandi árangur; 9,67. Rakel Ösp hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í sögu.
Semidúx var Eyrún Úa Þorbjörnsdóttir sem útskrifaðist af opinni braut með 9,55 í meðaleinkunn. Ólína Ákadóttir hlaut viðurkenningu úr minningarsjóði um Sverri S. Einarsson (1948-1998), fyrrverandi rektor skólans, fyrir að hafa nýtt sér möguleika áfangakerfis MH á framúrskranandi hátt og brautskráðst af tveimur námsbrautum.
Í ávarpi við brautskráningarathöfn gerði Steinn Jóhannsson rektor fjölbreytni í námi og skólastarfi að umtalsefni. Benti á að nemendur skólans koma frá hátt í 30 þjóðlöndum og enn fleiri menningarheimum. Í nemendahópnum væri hæfileika- og afreksfólk til dæmis í tónlist, íþróttum, stærðfræði, ensku, myndlist, ræðumennsku, ljóðlist, ritlist og fleiru. Ótrúlegir hæfileikar fælust í nemendahópnum sem drægju fram fjölbreytnina í skólastarfinu.
„Við viljum að í skólanum séu nemendur sem endurspegla alla liti litrófsins,“ sagði Steinn sem hvatti nemendur til að hafa hugrekkið að leiðarljósi í verkefnum sínum í framtíðinni. „Ekki hafa áhyggjur af því að mistakast í því sem þið takið ykkur fyrir hendur. Verið ákveðin í ykkar verkum,“ sagði Steinn.
Rektor sagði nemendur sem nú væru að útskrifast þekkja að skólahald geti tekið hröðum breytingum. Ýmislegt hafi gerst í skólanum að undanförnu, svo sem jarðskjálftar, sprengjuhótun og svo Covid. Fyrir vikið séu nemendur eins konar sérfræðingar í breytingastjórnun. „Sem betur fer er okkur eðlislægt að takast á við breytingar eða ókunnar og framandi aðstæður. Við brautskráningu eruð þið sérfræðingar í sóttvörnum og vön því að hafa grímuna uppi. Ég fullyrði að þessi dýrmæta reynsla gerir ykkur tilbúin til að mæta hvaða aðstæðum sem er í námi, í lífinu og á vinnumarkaði.“