Verið er að rýma útsýnishól við eldgosið í Geldingadölum svo fólk verði ekki innlyksa á hólnum. Búist er við því að hraunrennslið muni umkringja hólinn í dag eða á morgun. Þetta segir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.
Gunnar segir mjög fáa á svæðinu, líklega séu ekki nema um 50 manns við gosstöðvarnar. Þessi svokallaða rýming muni ekki taka langan tíma enda sé einungis um smáhól að ræða.
Hóllinn sem um ræðir er að sögn Gunnars á hrygg sem er á milli Geldingadala og dalsins sem er syðstur Meradala, og er hóllinn á nyrsta enda hryggjarins.
Útsýnishóllinn hefur að sögn Gunnars verið einn aðalútsýnisstaðurinn frá því gos hófst í Geldingadölum og þarna hefur fólk komist næst gosinu. Útsýnið við gosstöðvarnar mun því breytast eitthvað.
„Eftir því sem líður á gosið verður náttúrlega erfiðara að komast nálægt þessum gosgíg. Það segir sig sjálft eftir því sem það breiðir úr sér hraunið. Það eru ágætisútsýnisstaðir þarna en þetta breytist aðeins,“ segir Gunnar.
Gunnar segir að búist hafi verið við því að hraunið myndi umkringja hólinn í rúma viku núna, vegna þess að hraun í Geldingadölum hefur verið að hækka sig upp í skarð í Geldingadölum.
„Fyrir svona viku, tíu dögum sýndu hraunrennslisspár að það gætu verið svona vika eða tíu dagar í að hraunin myndu ná í þetta skarð og þá yrði þessi hóll eins og óbrynnishólmi. Þannig að nei, þetta kemur ekki á óvart. En það er náttúrlega alltaf spurning um hvernig þetta hraun hagar sér og streymir og hvenær þetta myndi gerast,“ segir Gunnar og bætir við:
„Hraunstreymið á þessu svæði er að taka kippi í þessa átt þennan daginn og svo hinn daginn kannski mest rennsli í aðra átt, en ég á von á að þetta verði mjög fljótlega, og björgunarsveitarmenn sem hafa verið þarna í dag segja frekar stutt í það.“