Samherji hefur gengið of langt í viðbrögðum sínum við umfjöllum fjölmiðla um fyrirtækið og biðst fyrirtækið afsökunar á framgöngu sinni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu sem birt var nú í hádeginu.
Í yfirlýsingunni segir að stjórnendum og starfsfólki hafi sviðið umfjöllun um fyrirtækið og störf þess sem því þyki hafa verið einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum. Í slíkum aðstæðum geti reynst erfitt að bregðast ekki við.
Það breyti því þó ekki að þau orð sem starfsmenn fyrirtækisins hafa viðhaft sín á milli séu óheppileg. Vísar félagið þar væntanlega til tölvupóstsamskipta starfsmanna félagsins sín á milli, sem Kjarninn gerði opinber á dögunum.
Þar ræddi hópur starfsmanna félagsins, sem kallaði sig „skæruliðadeild fyrirtækisins“, um leiðir til að koma höggi á blaðamenn sem hafa staðið í stafni í umfjöllun um starfsemi Samherja í Namibíu og meintar mútugreiðslur, einkum Helga Seljan, auk þess að leggja á ráðin um hvernig beita megi ítökum sínum til að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélaginu og prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.