Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ræsti fimm kílómetra leiðina í Miðfellshlaupinu í gær. Þetta var fyrsta Miðfellshlaupið en það er hluti af átakinu „Heilsueflandi samfélag“ í Hrunamannahreppi. Skráningargjaldið rann óskipt til landbyggðadeildar Ljóssins.
Um hundrað manns tóku þátt og hlupu milli Flúða og Miðfells. Þátttakendur gátu valið milli 3, 5 eða 10 kílómetra hlaupaleiða.
„Við erum ótrúlega þakklát skipuleggjendum og öllum þeim sem hlupu og hjálpuðu okkur þannig að vekja athygli á nýstofnaðri Landsbyggðardeild Ljóssins. Deildinni er ætlað að styðja betur við þá sem greinast með krabbamein og búsettir eru á landsbyggðinni,“ segir Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins, í tilkynningu.
Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.