Skrifað með báðum heilahvelum

Bergsveinn tekur við verðlaununum í Lillehammer á föstudaginn úr hendi …
Bergsveinn tekur við verðlaununum í Lillehammer á föstudaginn úr hendi Christin Kramprud, formanni félags norskra bóksala eða Bokhandelforeningen. Bergsveinn hefur gert tilraunir með það sem hann kallar skáldsagnaleg brögð í fræðibókum sínum til að gera efnið aðgengilegra lesendum, greinilega við nokkurn orðstír. Ljósmynd/Tiril Broch Aakre

„Þetta er gríðarleg viðurkenning,“ segir Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og doktor í norrænum fræðum frá Háskólanum í Bergen í Noregi, í samtali við mbl.is, en Bergsveini veittust á föstudaginn fræðibókaverðlaun bóksala, Bokhandelens sakprosapris 2021, á Norsku bókmenntahátíðinni í Lillehammer, eða Norsk Litteraturfestival, sem er stærsta bókmenntahátíð Skandinavíu og einnig kennd við hina ástsælu norsku skáldkonu Sigrid Undset, Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum árið 1928.

Verðlaunin veita samtök norskra bóksala, Bokhandlerforeningen, og Samtök höfunda og þýðenda fagbókmennta, eða Norsk faglitterær forfatter- og oversetterforening, en Bergsveini veittust verðlaunin fyrir bók sína Mannen fra middelalderen, Maðurinn frá miðöldum, sem fjallar um fyrsta sagnaritara Noregs sögu, Íslendinginn og handritasafnarann Þormóð Torfason, sem Bergsveinn segir algjörlega gleymdan.

Skáldsagnaleg brögð

„Líklega er best að kalla þetta fræðibókaverðlaun,“ segir höfundurinn, inntur eftir um hvað verðlaun sem bera nafnið sakprosapris, snúist eiginlega. „Mér hefur verið legið nokkuð á hálsi fyrir að skrifa sögulegar skáldsögur og menn hafa verið svolítið óvissir um hvar eigi að setja mig inn í þessa dikótómíu sem er ráðandi, það er skáldsaga eða fræðibók. Ég hef reynt að vinna heimavinnuna mína vel, en svo hef ég gripið til, ja, skádsagnalegra bragða í þessum fræðibókum mínum, til þess einfaldlega að gera þetta leshæft,“ ljóstrar Bergsveinn upp um vinnubrögð sín.

Kveðst hann með því vilja ná til breiðari hóps lesenda en þeirra sem hafa akkúrat áhuga á því tímabili sögunnar sem hann er að gera skil hverju sinni. „Þetta hefur verið tilraun mín til að skrifa, eins og ég kalla það, með báðum heilahvelunum, bæði sem rithöfundur og fræðimaður og líka með þessa tilvistarlegu vídd, en gera þó enn fremur grein fyrir heimildum eins og hægt er og vinna allt það starf.

Þessi verðlaun, eins og kom fram hjá dómnefndinni, eru mikið til sprottin af því að mönnum hefur eitthvað líkað við þessar tilraunir mínar, sem ég nota einnig í þessari bók minni, Manninum frá miðöldum,“ útskýrir höfundurinn.

Hálfa ævina í Noregi

Til að gera nánari grein fyrir verðlaununum og staðfæra þau örlítið segir Bergsveinn að væru þessi verðlaun veitt á Íslandi kæmu þau líkast til frá íslenskum bóksölum og Hagþenki, félagi höfunda fræðirita og kennslugagna. Milli átta og níu hundruð fræðirit koma út ár hvert í Noregi og vinnur dómnefnd verðlaunanna að því að velja úr þeim potti höfund sem hlýtur verðlaunin, 50.000 norskar krónur, um 750.000 íslenskar.

Bergsveinn hefur verið búsettur í Bergen í Noregi hálfa ævi sína, en hefur upp á síðkastið haldið til á Íslandi og kom því sérstaklega til Noregs til að sækja bókmenntahátíðina, en heldur til Íslands á ný í dag. Förin mun hafa gengið áfallalaust þrátt fyrir heimsfaraldur sem nú er í rénun eða hvað?

„Þessi Norska bókmenntahátíð eins og hún heitir – en hún er reyndar einnig kölluð Sigrid Undset-dagarnir af því að Undset bjó hérna á Bjerkebæk, rétt við miðbæinn í Lillehammer – er stærsta bókmenntahátíð í Skandinavíu og ekki óvanalegt á betri dögum að um 200 rithöfundar hvaðanæva úr heiminum séu boðnir til hennar, en núna í þessu ástandi hlotnast mér sá vafasami lúxus að vera eini „útlenski“, innan gæsalappa, gesturinn, það er að segja ekki frá Noregi,“ segir Bergsveinn og hlær við.

Höfundurinn ber með sér rammíslenskt ættarmót, hér skrýddur lopapeysu með …
Höfundurinn ber með sér rammíslenskt ættarmót, hér skrýddur lopapeysu með mynstri sem Morgunblaðið fjallaði nýlega um á öðrum vettvangi. Þyki lesendum sjómannsbragur á Bergsveini er hann ekki ókunnur fangbrögðum við ægi, hélt vestur á land á grásleppu að loknu stúdentsprófi árið 1991 til að íhuga næstu skref í lífinu. Ljósmynd/Frøydis Lindén

Aðrir erlendir höfundar hafi ekki komið vegna heimsfaraldursins, en reynt hafi verið að streyma efni hátíðarinnar og viðburðum eftir föngum. „Það kom ágætlega út, ég tók þátt í nokkrum svoleiðis prógrömmum og það gekk ágætlega, en fólk er orðið þreytt á að horfa á skjá, annars var nánast uppselt á allar uppákomur á hátíðinni, en vitanlega má ekki sitja þétt, ég held að þarna hafi verið 200 manns saman komnir í kirkju sem tekur 500 manns þegar ég hélt aðalfyrirlesturinn minn.“

Eigin aðferð til að miðla fortíðinni

Bergsveinn þurfti að hefja dvölina í Noregi í sóttkví og gerði það í Bergen áður en hann kom til hátíðarinnar í Lillehammer. „Ég kom bara hérna yfir fjallið eins og menn kalla það, með lestinni, eftir að ég hafði fengið að sitja af mér sóttkvína á heimaslóðum,“ segir hann af ferðalaginu.

Verðlaunin eru, eins og tilvitnað er í upphafi viðtalsins, gríðarleg viðurkenning, og heiðurinn mikill meðal annars með tilliti til þess fjölda fræðibóka sem út kemur í Noregi ár hvert. „Þetta er gríðarlegt magn vandaðra fræðibóka sem hér kemur út á hverju ári og mikið dugnaðarfólk þar á bak við, oft frábærir fræðimenn sem ég lít mikið upp til svo ég nánast skammast mín svolítið,“ segir verðlaunahafi ársins.

„Það sem dómnefndin leggur mikið upp úr er að ég hafi búið til mína eigin aðferð til að miðla fortíðinni sem er líklega það sem varð til þess að ég fæ þessi verðlaun núna, og þá er líka horft til bóka sem maður hefur gert áður og það er þá Svarti víkingurinn sem er með þessari sömu sagnfræðilegu aðferð,“ segir Bergsveinn og vísar til bókar sinnar Den svart vikingen frá 2013 sem kom út í íslenskri þýðingu undir heitinu Leitin að svarta víkingnum.

„Þetta fléttast dálítið saman við almenna umræðu sem hefur verið nokkuð ríkjandi í svona tíu ár hérna í Noregi, það er að segja hversu mikil bókmenntaleg brögð og ímyndunarafl maður á að leyfa sér í fræðibók og hvernig maður á að koma því að án þess að vera óvísindalegur, án þess að fara að bulla nokkuð. Þetta kemur dálítið inn í þá umræðu og svo þessa umræðu með háskólana og akademísk skrif og hins vegar fræðibókaskrif.

Brú milli miðaldafræða og nútíma

Þeir hjá þessum norska Hagþenki, það er að segja samtökum höfunda og þýðenda fagbókmennta hér í Noregi, vilja núna reyna að þrýsta á háskólaumhverfið um að fræðibækur verði líka taldar fram inni í þessu svokallaða talningarkerfi sem er inni í háskólunum og virkar þannig að þú færð eiginlega bara stig og peninga núna fyrir það sem kemur í viðurkenndum vísindalegum tímaritum, þannig að öll miðlun til almúgans, eða leikmanna, er verðlaus í akademíska kerfinu,“ útskýrir Bergsveinn.

Við snúum talinu að bókinni sem varð til þess að honum féllu verðlaunin í skaut í ár. Um hvað fjallar Maðurinn frá miðöldum?

„Þarna er efni sem ég hef fengist við áður að nokkru leyti. Þetta fjallar náttúrulega um norræn fræði, um sögurnar okkar og þessa elstu texta sem til eru á norrænu máli, en einnig um mann sem er fæddur á Íslandi árið 1636 og heitir Þormóður Torfason. Ef við einföldum þetta mjög mikið er þessi maður einn af mikilvægustu mönnunum sem búa til brú milli miðaldafræðanna, miðaldahandritanna, það er að segja Íslendingasagna, konungasagna og svo framvegis, og nútímans,“ segir Bergsveinn.

Frá hátíðinni í Lillehammer, bæ norðan Óslóar sem komst rækilega …
Frá hátíðinni í Lillehammer, bæ norðan Óslóar sem komst rækilega á heimskortið þegar Vetrarólympíuleikarnir voru haldnir þar árið 1994. Hátíðin er kennd við norsku skáldkonuna Sigrid Undset sem bjó í Lillehammer og hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1928. Ljósmynd/Tiril Broch Aakre

Þessi brúarsmíði Þormóðar hafi hvort tveggja falist í því að hann endurskrifaði sögu Noregs og mikið af sögu Íslands, sem hann gaf út á latínubókum. Í öðru lagi hafi Þormóður hins vegar safnað mörgum handritum á Íslandi, meðal annars stórvirkjum á borð við Konungsbók eddukvæða og fleiri djásnum handritaskrifara miðalda.

Þunglyndi unglingurinn

„Þessum handritum bjargaði hann og kom til Kaupmannahafnar í öryggi, en auk þess, og í þriðja lagi, lét hann gera uppskriftir af þessum gömlu skinnhandritum og líklega má segja að ekki hefði verið hægt að endurgera Heimskringlu eins vel og raunin er eða mikið af konungasögum nema væri fyrir Þormóð því mikið af þessum kópíum sem hann lét skrifara sína gera af skinnbókunum eru það eina sem við eigum í dag, mörg frumritanna brunnu í Kaupmannahöfn í brunanum 1728,“ segir Bergsveinn.

Hann kallar Þormóð hiklaust velgjörðarmann og björgunarmann íslenskrar sögu og bókmennta, en þrátt fyrir það sé hann nánast gleymdur. „Hann tók undir sinn væng þunglyndan pilt sem óskaði þess að vera orðinn eldgamall á unga aldri, hann væri orðinn leiður á sjálfum sér og lífinu. Þormóður stappaði stálinu í þennan pilt og sýndi honum í verki að ekki væru öll sund lokuð.

Þormóður var frábær sagnamaður og eldhugi, mundi allt sem hann las og gat talað lengi í innblásnum stíl um fortíðina og þessar gömlu hetjur. Og þessi þunglyndi unglingur sem hann kom á réttan kjöl þarna hét Árni Magnússon, það eru kannski einhverjir sem kannast við hann,“ segir Bergsveinn glettinn og á við handritasafnarann og prófessorinn í dönskum fornfræðum við Kaupmannahafnarháskóla sem síðar fékk íslenska rannsóknarstofnun nefnda eftir sér.

„Árni hefði aldrei orðið til nema fyrir Þormóð Torfason. Þetta er meðal þess sem ég er að benda á í bókinni. Við veljum okkur einhverja einstaklinga sem við ákveðum að hefja til skýjanna, en gleymum svo öllum sem þeir standa á öxlunum á. Þess vegna langaði mig að lyfta Þormóði Torfasyni dálítið upp, maður talar við fólk á Íslandi og það veit enginn hver þetta er, hann er gjörsamlega gleymdur. Þetta er svona í megindráttum inntakið,“ segir Bergsveinn af bók sinni.

Hvað er mín eigin menning?

Bergsveinn skrifar jöfnum höndum norsku og íslensku, heldur tryggð við ástkæra ylhýra að einhverju leyti, eins og hann orðar það. Meðal bóka hans má nefna verk á borð við Lifandilífslæk, Svar við bréfi Helgu og Leitina að svarta víkingnum, sem áður er nefnd. Bergsveinn hefur fjórum sinnum hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og tvisvar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs auk þess að hljóta Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir Svar við bréfi Helgu og síðast en ekki síst stórriddarakross hinnar konunglegu norsku heiðursorðu, fyrir framúrskarandi störf í þágu Noregs og alls mannkyns.

„Svona er nú þetta svokallaða líf, það er ekki létt …
„Svona er nú þetta svokallaða líf, það er ekki létt að planleggja það alveg í þaula,“ segir Bergsveinn, sem hélt til Óslóar árið 1995 til að lesa trúarbragðasögu, en sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir og trúarbragðasagan situr enn á hakanum hjá rithöfundinum sem hefur þó langt í frá setið með hendur í skauti. Ljósmynd/Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

Hann segist hafa hugsað til þess þegar hann var 48 ára að hann hefði búið jafn lengi í hvoru landi, Noregi sem Íslandi, 24 ár á hvorum stað. Hvernig kom þessi Noregsdvöl öll til?

„Það er þannig að ég er byrjaður að lesa íslensku við háskólann á Íslandi. Þá hafði ég leitt hugann um víðan völl og lært dálítið um aðra menningarheima, og það leiddi til spurningarinnar um hver mín eigin menning væri eiginlega. Frá íslensku fór ég svo að horfa meira á norrænar bókmenntir og einkum á goðafræðina. Þá frétti ég af því að hægt sé að taka trúarbragðasögu með norrænu ívafi í Ósló.

Fór að skrifa rómana

Þannig að ég fæ Nordplus-styrk og fer utan 1995. Til að gera langa sögu stutta er ég ekki enn byrjaður að lesa trúarbragðasögu, en svona er nú þetta svokallaða líf, það er ekki létt að planleggja það alveg í þaula. Svo ég fer yfir í norræn fræði og tek þar magistergráðu og svo doktorsgráðu við Háskólann í Bergen 2008.“

Kveður Bergsveinn sig þó ekki að öllu leyti hafa átt samleið með sínum meðreiðarsveinum í fræðunum þar sem hann hafi farið að skrifa rómana, eins og hann kallar það upp á skandinavísku, eða skáldsögur.

„Mig langaði meira að rannsaka þetta sem manneskja og rithöfundur líka, þessa gömlu sagnahefð, og þetta endar allt saman með því að ég brýst út úr akademíunni og háskólastarfinu og hendi mér út í það að fara að skrifa bækur um þessi efni, sem hefur gengið alveg furðanlega vel,“ segir Bergsveinn Birgisson að lokum, nýverðlaunaður rithöfundur og fræðimaður sem staðið hefur jafnfætis beggja vegna Atlantsála um áratuga skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka