Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins fagnaði því að stjórnmál væru aftur til umræðu. Ríkisstjórninni hefði liðið vel í kórónuveirufaraldrinum þar sem hún hefði getað unnið í skjóli veirunnar og þannig laumað ýmsum málum í gegn sem ella hefðu valdið fjaðrafoki.
Þetta kom fram í Silfrinu í morgun, en Sigmundur var þar gestur ásamt formönnum allra flokka sem sæti eiga á þingi.
Formaður Miðflokksins beindi sjónum sínum svo að minni íslenskum fyrirtækjum sem hann sagði hafa setið á hakanum áður en kórónukreppan hófst. Þó svo úrræði ríkisstjórnarinnar í faraldrinum hafi að mörgu leyti verið ágæt væru þau eins konar deyfilyf sem frestuðu afleiðingunum. Þá sagði hann allt of mikið eftirlit haft með þeim.
„Það þarf að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja hérna til mikilla muna. Sérstaklega litlu fyrirtækjanna. Nú er stöðugt verið að leggja á þau nýjar kvaðir, þær koma á færibandi og að miklu leyti frá Evrópusambandinu. Nú er staðan orðin sú að það er ekki hægt að reka lítið fyriræki á Íslandi öðruvísi en að vera með sérfræðinga í vinnu bara til þess að fást við kerfið. Smáfyrirtæki úti á landi á Íslandi þarf að uppfylla kröfur sem eru hannaðar fyrir Deutsche Bank,“ sagði Sigmundur í þættinum.
Hann taldi fjármunum sóað í að bregðast við eftirliti, það væru fjármunir sem hægt væri að nýta í mannauð og fjárfestingar. Mögulegt væri að framkvæma nauðsynlegt eftirlit á miklu skilvirkari hátt en nú er gert.