Tekist á um mjög stóra drætti

Tónlistarhúsið í Shillong í Meghalaya er tilraun Guðjóns til að …
Tónlistarhúsið í Shillong í Meghalaya er tilraun Guðjóns til að brjóta niður múra milli yfirstéttarinnar og almennings á Indlandi. Færa fólk saman, inn í og að húsinu.

Þema Feneyjatvíæringsins í byggingarlist árið 2021 er How will we live together? eða Hvernig komum við til með að búa saman? Það er sett fram af aðalsýningarstjóra viðburðarins, líbanska arkitektinum Hashim Sarkis og stjórnanda arkitektadeilar MIT háskóla, í því augnamiði að kalla eftir skapandi lausnum.

„Þetta er mjög opinn en jafnframt tvíræður titill,“ segir Guðjón Bjarnason, arkitekt og myndlistarmaður, sem valinn var á Tvíæringinn, „þar sem óskað er eftir hugmyndum frá þátttakendum um betri framtíð en kallar um leið á efasemdir um forsendur lífvænlegrar framtíðarskipanar. Helsta ástæðan fyrir því að Sarkis gefur sér þetta víða sjónarhorn er sú almenna tilfinning og skoðun að nú þurfi arkitektóníska hugsun til sem nái út fyrir landamæri.

Hnattræn tengsl eru þarna í brennidepli, loftlagsváin, pólitísk vandamál og straumur flóttamanna, hagfræðileg málefni svo sem sífellt aukin misskipting auðs sem er að kljúfa sundur þjóðríki og sundra innri samfélagsgerð þeirra og svo framvegis. Allt gefur þetta tilefni til ærlegrar naflaskoðunar og vangaveltna um hvað megi betur fara í þessum heimi í senn frá sjónarhóli einstaklingsins sem og hópa og þjóðfélaga. Tekist er á um mjög stóra drætti enda um að ræða mikilvægustu alþjóðlega sýningu veraldar á byggingarlist.“

Guðjón Bjarnason, myndlistarmaður og arkitekt.
Guðjón Bjarnason, myndlistarmaður og arkitekt.

Sá fyrsti í þrjá áratugi

Feneyjatvíæringurinn í myndlist er vel kynntur á Íslandi en minna hefur farið fyrir sambærilegum viðburði á sviði byggingarlistar enda um þrír áratugir síðan við Íslendingar völdum þar fulltrúa, að því er Guðjón kemst næst.

Byggingarlistin er sýnd á sama stað og myndlistin á Giardini-svæðinu, þar sem hinir 49 þjóðskálar eru, og svo Arsenal-hlutanum þar sem fimmtíu virtum arkitektum og hugsuðum var boðið til leiks. Framlag Guðjóns er að finna í ítalska skálanum í svokölluðum CITYX-hluta sýningarinnar.

Guðjón er ekki tilnefndur af íslenskum yfirvöldum, eins og myndlistarmennirnir, heldur var hann kallaður inn af sýningarstjóra CITYX, slóvanska arkitektinum Tom Kovac prófessor við RMIT háskólann, Melbourne.

„Ég veit ekki fyrir víst hvernig boð um þátttöku kom til en sennilega hafa komið meðmæli frá einhverjum sem er kunnugur ferli mínum og verkum. Ég er í öllu falli ljómandi ánægður að fá tækifæri til að vera þátttakandi í þessu stóra og margslungna verkefni,“ segir Guðjón.

Nánar er rætt við Guðjón í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert