Þyrlur Landhelgisgæslunnar lentu tvisvar við Landspítalann í Fossvogi síðdegis í dag. Sjúklingar voru fluttir í bæði skiptin, frá Patreksfirði og frá Vestmannaeyjum.
Fyrra útkallið var vegna veikinda manns í gönguferð við botn Patreksfjarðar. Þyrla Gæslunnar hafði verið við æfingar í grenndinni og flaug með hann til Reykjavíkur um klukkan 14 í dag.
Seinna útkallið var hluti af hefðbundnu sjúkraflugi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Sjúkraflugvél gat ekki sinnt fluginu vegna veðurskilyrða að sögn upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.