Niðurstöður álagningar einstaklinga hjá Skattinum liggja fyrir og geta menn nú nálgast lokauppgjör sitt á vef Skattsins, skattur.is. Þeir sem hafa ofgreitt mega eiga von á greiðslu á morgun, 1. júní, en hinir sem skulda fá greiðsluseðla í heimabanka næstu mánuði.
Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum verður álagningarskrá síðan lögð fram á skrifstofum Skattsins 16. ágúst og getur hver sem er þá nálgast upplýsingar um það hvað aðrir greiddu í skatt á liðnu ári. Er þetta í samræmi við lög um tekjuskatt og eignarskatt.
Til þess þarf að gera sér ferð á skrifstofu Skattsins til að fletta í útprentuðum skránum, sem ekki eru gefnar út á tölvutæku formi. Löng hefð er fyrir því að fjölmiðlar safni þessum upplýsingum og birti tekjur áhrifamanna.
Áhugamenn um skattgreiðslur annarra gripu þó í tómt í fyrra. Þá voru álagningarskrár ekki birtar og ástæða þess kórónuveiran. Ekki þótti forsvaranlegt að safna fólki saman til að fletta í sömu möppunni á tímum heimsfaraldurs. Af þeim sökum kom tekjublað Frjálsrar verslunar ekki út í fyrra og var það í fyrsta sinn í áratuga sögu ritsins.
Ekki er þó búist við öðru en að blaðið komi út í ár, að sögn Trausta Hafliðasonar ritstjóra Viðskiptablaðsins.
Viðamikil persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins var tekin upp á Íslandi í mars 2019 og í kjölfarið vöknuðu áleitnar spurningar um það hvort birting álagningarskrárinnar, sem kveðið er á um í lögum, stæðist persónuverndarlögin.
Í áliti Persónuverndar, sem gefið var út sumarið 2019, kemur fram að ríkisskattstjóra sé heimilt að leggja fram þessar upplýsingar, þ.e. yfirlit yfir tekjuskatt og útsvar einstaklinga ásamt nafni, heimilisfangi og fæðingardegi. Hefur því verið fylgt síðan.
Allt fram að gildistöku persónuverndarlöggjafarinnar tíðkaðist enn fremur að Skatturinn (þá Ríkisskattstjóri) gæfi út sérstakan lista yfir tíu hæstu greiðendur opinberra gjalda og var hann jafnan þekktur sem hákarlalistinn. Tilvist hans létti skattablaðamönnum lífið enda óneitanlega erfitt að þræða álagningarskrána með tugþúsunda einstaklinga í leit að hæstu tölunum. Þessu var hins vegar hætt frá og með árinu 2019.