Árgangar dregnir upp úr hatti

Handahófskenndar bólusetningar hefjast í vikunni.
Handahófskenndar bólusetningar hefjast í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu mun byrja að boða handahófskennt í bólusetningar í vikunni. Áður en farið verður í það verður reynt að tæma alla forgangslista. „Þetta er fólk sem hefur áður fengið boð um bólusetningu en hefur ekki komist eða hefur hafnað boðinu, meðal annars vegna þess að það hefur ekki viljað það bóluefni sem er í boði,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Nokkur þúsund manns eru eftir á þessum listum og ekki liggur fyrir hversu margir munu svara kallinu.

Á þriðjudag verða 7.700 skammtar af Pfizer gefnir. Á miðvikudag verður bóluefni frá Moderna notað, 5.000 skammtar, og á fimmtudag verða gefnir um 600 skammtar af Janssen. Áhafnir skipa og flugfélaga hafa verið í forgangi þegar kemur að bóluefni Janssen þar sem aðeins þarf að gefa einn skammt af því.

Dregið um árganga

Um leið og það liggur fyrir hversu margir af forgangslistunum munu mæta í bólusetningu verður tekin upp handahófskennd boðun. Ragnheiður segir fyrirkomulagið verða einfalt. Árgöngum verður skipt í tvennt eftir kyni. Miðar prentaðir með árgangi og kyni, þeir settir í tvær krúsir, karlakrús og kvennakrús, og svo dregið til skiptis svo kynjahlutfallið haldist jafnt. Síðan verða árgangar boðaðir eftir hefðbundnum leiðum með SMS-skilaboðum.

„Það átti fyrst að fara að forrita kerfi en svo var svo mikið af verkefnum hjá forriturunum okkar. Þannig að við sáum að þetta yrði einfaldast. Þessi leið er nokkuð sanngjörn og við munum grípa til hennar þegar við sjáum hvernig mætingin verður á þriðjudag,“ segir Ragnheiður.

Árgangar frá 1975 til 2005

Hún gerir ráð fyrir að árgangur 1975 verði elsti árgangurinn í handahófskenndu boðuninni og því verður 31 árgangur í pottinum. Meðalfjöldi fólks í hverjum árgangi frá 1975 til 2005 er um 3.400.

Um 20.000 skammtar af bóluefni Pfizer eru á leiðinni til landsins í vikunni og er þetta stærsta sendingin til þessa. Að sögn Júlíu Rósar Atladóttur, framkvæmdastjóra Distica, munu álíka stórar sendingar koma frá lyfjafyrirtækinu í hverri viku í júnímánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert