Allt er klárt fyrir handahófskennda bólusetningu árganga, sem hefst innan nokkurra daga.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í morgun verður farin sú leið að draga út heilu árgangana, einn árgang kvenna og annan árgang karla og verður aðferðin af gamla skólanum. Búið er að prenta út alla litla miða með nöfnum allra árganga frá 1975 til 2005 og setja í krús.
Ekki er rétt, eins og fram kom í öðrum miðlum, að dregið verði um nöfn enda myndu miðar þá skipta þúsundum. Dregið verður um árganga, blár miði fyrir árgang karla og bleikur fyrir kvenna.
Áður en að því kemur verður þó lokið að bjóða fólki í forgangshópum, sem ekki hefur enn fengið bóluefni, sinn skammt. Alls eru 7.000 skammtar í boði fyrir þá hópa. Að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fengu um 10.000 manns boð í þá bólusetningu – fleiri en skammtarnir eru.
Ragnheiður segir það ráðast af því hversu vel gengur að koma þeim skömmtum út, hvenær hafist verður handa við dráttinn, en það verður að öllum líkindum í vikunni.