Álfur brugghús hlaut um helgina silfurverðlaun í alþjóðlegu bjórsamkeppninni Barcelona Beer Festival fyrir belgíska hvítölið Búálf.
Er þetta fyrsta keppnin sem Álfur tekur þátt í utan landsteinanna en mörg hundruð brugghús tóku þátt í keppninni og tefldu fram um 1.700 bjórum.
„Við erum í skýjunum yfir þessu. Álfur er ekki nema tveggja ára gamalt brugghús og það skemmtilega er að við erum að brugga úr íslenskum kartöflum,“ segir Haukur Scott Hjaltalin, einn stofnenda Álfs, í samtali við Morgunblaðið. Um er að ræða samvinnuverkefni við Þykkvabæ þar sem notuð er sterkja úr kartöflum, sem annars hefðu farið til spillis, og ger frá Belgíu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.