Dagpeningar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands fyrir sumarið 2021 hækka um 19% milli ára. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins en nýjar reglur gilda frá og með 1. júní 2021. Mest hækkar greiddur kostnaður fyrir gistingu en minnst hækkar kostnaður fyrir fæði.
Dagpeningar fyrir gistingu og fæði í einn sólarhring sumarið 2020, þ.e. frá 1. júní til 30. september, námu 29.400 kr., en gisting og fæði fyrir sumarið 2021 hljóða nú upp á 35.000 krónur.
Fæði fyrir heilan dag hækkar úr 12.400 kr í 12.900 kr. en fæði fyrir hálfan dag er helmingur þess og er hækkunin sú sama, eða 4%.
Mest hækkar gisting eins og áður sagði en hún hækkar um 30% úr 17.000 kr. á hvern sólarhring upp í 22.100 krónur. Því má ætla að heildarhækkunin upp á 19% ráðist að mestu vegna hærra verðs á gistingu innanlands.