Furðulegar og óttalegar verur

Alexander Dan Vilhjálmsson gaf sjálfur út sína fyrstu skáldsögu, Hrímland, þegar enginn annar vildi gera það. Hann sendi svo fyrstu kaflana úr bókinni til bresks stórfyrirtækis sem tók henni opnum örmum og gaf út á ensku fyrir tveimur árum. Framhaldið er svo í smíðum.

Alexander skrifar bækur sem kalla má furðusögur, enda gerast þær á Íslandi sem er frábrugðið því sem við þekkjum; dularfullt og ógnvekjandi, upp fullt með galdri og furðulegum og óttalegur verum. Skáldsaga hans, sem heitir Skammdegisskuggar í íslenskri útgáfu, kom út á ensku hjá einu stærsta forlagi heims fyrir rúmu ári og hann vinnur nú að framhaldi hennar.

Skammdegisskuggar eiga rætur í skáldsögunni Hrímland sem kom út fyrir nokkrum árum, en þegar Alexander sendi það handrit til íslenskra útgefenda vildu þeir ekki gefa bókina út svo hann gerði það sjálfur, vildi finna bókinni farveg.

Síðar þegar hann var í ritlistarnámi í Háskóla Íslands fór hann í skiptinám til London og tók þar ritlistaráfanga á ensku. „Þá prófaði ég að skrifa á ensku og sá að ég gat alveg skrifað skáldskap á ensku og hinir nemendurnir, sem voru enskumælandi, voru bara að gera öðruvísi mistök en ég, það var öðruvísi nálgun á enskuna. Auðvitað var orðaforðinn líka öðruvísi, en ég sá að gæti þetta alveg.“

Í kjölfarið bar það við að breskur útgefandi, Gollancz, eitt stærsta forlag Bretlands, opnaði tímabundið fyrir innsendingu handrita, en alla jafna taka stórfyrirtæki ekki við handritum nema viðkomandi rithöfundar séu komnir með umboðsmann. „Ég var náttúrlega ekki með umboðsmann en hugsaði: þetta er flott deadline til þess að prófa að þýða bókina.

Bókin fer síðan í 2.000 handrita hrúgu og liggur hjá Gollancz í eitt og hálft ár og ég gleymdi þessu bara. Það var athyglisvert að prófa þetta en nú var ég bara búinn með þessa bók. Ég reyndi að finna henni einhvern farveg og ef þú heyrir ekki frá svona opinni innsendingu þá er bara verið að segja nei.

En þetta var ekki þannig, þau voru bara að handskrifa neitunarbréf til tvö þúsund höfunda í eitt og hálft ár. 2017 fékk ég svo ég tölvupóst frá ritstjóra hjá Gollancz sem bað mig um restina af handritinu. Þegar ég sá hvað þetta var lokaði ég póstinum strax, fór svo fram og fékk kvíðakast af því að ég var ekki búinn að þýða restina af bókinni.“

Hér að ofan má sjá brot úr viðtal­inu en Dag­mál eru aðgengi­leg áskrif­end­um Morg­un­blaðsins hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka