Landsréttur dæmdi á föstudag íslenska ríkið til að greiða tveimur fyrrverandi starfsmönnum Hagstofu Íslands 13,5 milljónir með dráttarvöxtum auk málskostnaðar upp á 1,6 milljónir vegna ólögmætra uppsagna úr starfi.
Tveir fyrrverandi starfsmenn Hagstofu Íslands höfðuðu mál samhliða gegn íslenska ríkinu eftir að þeim var sagt upp störfum í september 2018. Dómur féll í málunum í Landsrétti fyrir helgi og var niðurstaðan sú að íslenska ríkinu var gert að greiða hvorum stefnanda 6.750.000 krónur með dráttarvöxtum auk 800.000 króna í málskostnað.
Hafði Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt íslenska ríkið til að greiða samanlagt níu milljónir króna til stefnenda auk málskostnaðar áður en málunum var áfrýjað til Landsréttar í janúar 2020.
Landsréttur hækkaði bæturnar því umtalsvert en staðfesti dómana að öðru leyti.
Íslenska ríkinu var stefnt til varna fyrir Landsrétti en ekki Hagstofunni, sökum þess að stofnunin er undir yfirstjórn fjármála- og efnahagsráðherra.
Samkvæmt Hagstofunni voru uppsagnirnar tvær tilkomnar vegna skipulagsbreytinga en stefnendur töldu uppsagnirnar tengjast frammistöðu þeirra í vinnu. Byggðu þeir ályktun sína meðal annars á upplýsingum sem þeim bárust frá Hagstofu eftir að hvorugur stefnandi fyrir sig bað um rökstuðning fyrir uppsögn sinni. Kom þá fram í bréfi frá stofnuninni að auk skipulagsbreytinga hefði skortur á hæfni í starfi verið ráðandi þáttur í þessu ferli.
Í október 2018, stuttu eftir uppsagnirnar, auglýsti Hagstofan síðan fimm laus störf og leituðu stefnendur í kjölfarið til stéttarfélags síns. Var þá aftur haft samband við Hagstofu sem stóð fast á því að um skipulagsbreytingu væri að ræða. Sáu stefnendur sig því knúna til að höfða dómsmál til að leita réttar síns.
Stefnendur reistu dómkröfur sínar meðal annars á þeirri forsendu að engin lög veiti heimild fyrir uppsögnunum í ljósi þess að ekki var um skipulagsbreytingu að ræða. Fékk þá hvorugur stefnanda formlega áminningu áður en þeim var sagt upp líkt og kveðið er á um í 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Fjártjónskröfur stefnenda byggðust á launamissi yfir 18 mánaða tímabil auk þriggja milljóna miskabótakröfu. Hljóp því samanlögð dómkrafa stefnenda á hátt í 31 milljón króna.