Læknar lýsa áhyggjum af stöðu heilsugæsla

FÍH biður almenning að sýna starfsfólki heilsugæslunnar þolinmæði og skilning.
FÍH biður almenning að sýna starfsfólki heilsugæslunnar þolinmæði og skilning. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Félags Íslenskra Heimilislækna (FÍH) lýsir yfir áhyggjum sínum af stöðunni í heilsugæslunni. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn félagsins sendi heilbrigðisráðuneytinu í dag.

Þar segir:

„Í rúmt ár höfum við glímt við nýjan vágest til viðbótar við fyrri störf. Áræðni og mikinn sveigjaleika hefur þurft í þjónustu okkar vegna Covid undanfarið ár. Undanfarna mánuði hefur síðan vinna kringum bólusetningar bæst við. Áhyggjur margra einstaklinga verið töluverðar, fyrirspurnir varðandi Covid og bólusetningar hellst yfir starfsfólk heilsugæsla.

Jafnframt leita skjólstæðingar til okkar með sín uppsöfnuðu vandamál. Með samvinnu og hugmyndaauðgi hefur þjónusta heilsugæslustöðva verið aðlöguð að þessu mikla álagi, en þessi nýju verkefni þýða að önnur úrlausnarefni frestast og seinkar.“

Enn fremur segir að vaktþjónustur séu mjög setnar og mikið álag sé á Læknavaktinni, þar sem verr hefur gengið að manna en áður. „Töluverðrar uppsafnaðrar þreytu gætir því í okkar hópi og samstarfsfólks,“ segir í ályktuninni.

„Stjórn FÍH skorar því á heilbrigðisyfirvöld að huga vel að starfsfólki heilsugæslunnar. Tryggja að fjárveitingar til reksturs heilsugæslunnar séu tryggðar hvort sem þær eru sjálfstætt reknar eða opinberar. Jafnframt biðjum við almenning að sýna starfsfólki heilsugæslunnar þolinmæði og skilning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka