Lögreglumenn segjast vera allt of fáir við störf

Lögreglumenn að störfum.
Lögreglumenn að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allt of fáir lögreglumenn eru við störf og hlutfall lærðra lögreglumanna er hættulega lágt.“

Þetta segir í ályktun stjórnar Landssambands lögreglumanna, sem send var á fjölmiðla í kvöld. Þar lýsir stjórnin miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem lögreglan standi frammi fyrir.

„Ljóst er að eftir að stytting vinnuvikunnar tók gildi þann 1.maí síðastliðinn hefur staða löggæslu á Íslandi versnað til muna,“ skrifar stjórnin.

Færri lögreglumenn á vakt

„Þrátt fyrir loforð og samninga um annað hafa lögregluembætti landsins ekki fengið fjármagn frá ríkisvaldinu til að ráða viðbótarmannskap. Það hefur í för með sér að færri lögreglumenn eru á vakt hverju sinni. Þetta ástand dregur verulega úr öryggi lögreglumanna og almennings.“

Tekið er fram að þegar samið hafi verið um styttri vinnuviku fyrir vaktavinnufólk, hljóti ríkisvaldinu að hafa verið ljóst að ráða þyrfti fleiri lögreglumenn til starfa og um leið setja aukið fé í menntun lögreglumanna.

„Lögreglumenn krefjast þess að ráðamenn standi við gerða samninga og veiti það fjármagn sem þarf til þess að manna lögregluna með viðunandi hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert