„Mig langar að útrýma þessum hindrunum“

Derek segir stöðu erlendra nema á Íslandi mjög misjafna.
Derek segir stöðu erlendra nema á Íslandi mjög misjafna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Derek T. Allen, nýr forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta, er fyrsti erlendi stúdentinn sem leiðir réttindabaráttu stúdenta á landsvísu. Hann flutti til landsins fyrir fimm árum síðan og fór beint í háskólanám í íslensku. Derek segir að þegar hann flutti til landsins hafi honum ekki dottið í hug að hann myndi einn daginn fara með svo stórt ábyrgðarhlutverk fyrir hönd stúdenta á Íslandi. Derek vill ryðja hindrunum úr vegi stúdenta, sama hvaðan þeir koma.

Derek er frá bænum Steilacoom í Washington ríki í Bandaríkjunum. Derek hafði tekið þátt í nemendastarfi í skólanum sínum þar áður en hann kom til Íslands. Það þótti honum lítið spennandi en ákvað samt sem áður að slá til þegar honum bauðst að taka sæti á lista stúdentahreyfingarinnar Vöku árið 2018. Þá hafði ókunnugur einstaklingur samband við hann og bauð honum sæti.

Í kjölfarið tók Derek sæti sem varafulltrúi í Stúdentaráði Háskóla Íslands og varð forseti alþjóðanefndar Stúdentaráðs. Ári síðar tók hann sæti aðalfulltrúa í Stúdentaráði. Fyrir ári síðan söðlaði hann síðan um og ákvað að láta til sín taka í réttindabaráttu stúdenta á landsvísu. Þá var hann kjörinn jafnréttisfulltrúi Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS). Ári síðar hlaut hann kjör í embætti forseta LÍS.

Erlendir stúdentar sem tala ekki íslensku stundum mjög einangraðir

Sem alþjóðlegur stúdent hefur Derek rekist á ýmsa veggi í námi sínu á Íslandi og heyrt af hindrunum sem aðrir stúdentar, erlendir eða þeir sem eru með erlend nöfn eða annað litarhaft en hvítt, hafa lent í.

„Ég hef heyrt sögur um fólk sem hefur fengið tölvupósta frá kennurum á ensku bara vegna þess að það er með erlent nafn eða vegna þess hvernig það lítur út. Þá eru erlendir stúdentar sem tala ekki íslensku stundum mjög einangraðir innan skólakerfisins, frá samnemendum sérstaklega. Staða þeirra er mjög misjöfn eftir því hvaðan þeir koma,“ segir Derek.

„Það þurfa að vera fjölbreyttari fyrirmyndir í kennslu og kennsluefni. Það væri líka gott ef háskólakennarar fengju einhverskonar kennslu um fjölbreytileika.“

„Ég hef heyrt sögur um fólk sem hefur fengið tölvupósta …
„Ég hef heyrt sögur um fólk sem hefur fengið tölvupósta frá kennurum á ensku bara vegna þess að það er með erlent nafn eða vegna þess hvernig það lítur út,“ segir Derek. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Enginn á að þurfa að setja líf sitt í hættu til þess að sækja sér nám“

Derek brennur fyrir flestu því sem snertir hag stúdenta á landsvísu en hann er með þrjú megin leiðarljós í sinni baráttu.

„Í fyrsta lagi þurfum við að takast á við samfélagið eins og það verður eftir Covid, eða þegar Covid er alveg að klárast. Ég ætla að berjast fyrir því að fjarnám verði enn tryggt, sérstaklega fyrir fólk á landsbyggðinni og fólk sem er í Covid-áhættuhópum,“ segir Derek. „Enginn á að þurfa að setja líf sitt í hættu til þess að sækja sér nám.“

Í öðru lagi ætlar Derek að beita sér fyrir atvinnuréttindum erlendra stúdenta, sérstaklega þeirra sem eru frá löndum utan EES. Réttindi þeirra eru afar takmörkuð eins og leikar standa. 

„Mig langar að útrýma þessum hindrunum,“ segir Derek.

Í síðasta lagi vill Derek sjá hærra frítekjumark og framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna.

Tveir stúdentar sem tala ekki íslensku í framkvæmdastjórn 

Derek talar sjálfur íslensku, enda lærði hann íslensku sem annað mál í Háskóla Íslands. Þá lagði hann stund á þýðingafræði í meistaranámi sínu. Í framkvæmdastjórn LÍS næsta árið verða þó tveir stúdentar sem tala ekki íslensku.

„Þetta er mjög fjölbreyttur og flottur hópur. Í honum eru tveir stúdentar sem tala ekki íslensku svo það er líka einhvers skonar áskorun fyrir okkur. Mér hefur fundist að erlendir stúdentar séu reiðubúnir að taka þátt í auknum mæli sem er frábært að sjá því við vitum vel að það eru áskoranir og hindranir sem mæta okkur. Við viljum bara fjarlægja þessar hindranir,“ segir Derek.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka