„Ólýsanleg tilfinning“

Heiðarskóli sigraði Skólahreysti 2021.
Heiðarskóli sigraði Skólahreysti 2021. Skjáskot/Rúv.

Það var Heiðarskóli í Reykjanesbæ sem hafði sigur úr býtum eftir harða keppni Skólahreystis á laugardag. Aðeins munaði hálfu stigi á fyrsta og öðru sæti, en þar lenti Laugalækjaskóli. Í þriðja sæti var síðan Flóaskóli.

Sigurlið Heiðarskóla skipuðu Jana Falsdóttir og Kristófer Máni Önundarson (hraðaþraut), Heiðar Geir Hallsson (upphífingar og dýfur) og Emma Jónsdóttir (armbeygjur og hreystigrip).

„Allt þess virði, allar erfiðu æfingarnar, þrekið og allt sem við lögðum á okkur til þess að reyna að vinna,“ sagði Kristófer Máni Önundarson, sem keppti í hraðþraut. „Við vorum búin að reikna út hvernig við þyrftum að standa okkur í hraðaþrautinni til þess að við gætum unnið, við hefðum kannski viljað vinna með fleiri stigum en þetta er sigur og ég er sáttur með það,“ bætti hann svo við.

Þetta er fjórði sigur skólans en þá hefur hann einnig endað þrisvar sinnum í öðru sæti og tvisvar í þriðja sæti.

Mikil gleði og spenna í undirbúningi

Þá sögðu þau undirbúninginn hafa gengið vel og jákvæðni og að almennt góð liðsheild hafi einkennt liðið. „Við æfðum öll saman einu sinni í viku og tókum stundum auka æfingar og höfðum gert það bara síðan í byrjun skólaársins,“ sagði Emma Jónsdóttir, sem keppti í armbeygjum og hreystigreipi.

„Það hefur verið ótrúlega gaman að sjá liðsheildina, hvað þau voru jákvæð og dugleg að hvetja hvort annað áfram, þá voru varamennirnir okkar einnig geggjaðir í hvatningunni,“ sagði Helena Jónsdóttir, þjálfari liðsins. „Það er alveg sama hvað maður lætur þau gera, þau gera það alltaf hundrað prósent og leggja sig fram,“ bætti hún svo við.

„Þetta var ólýsanleg tilfinning,“ sagði Emma en þau höfðu fundið fyrir smá stressi fyrir úrslitin. „Ég fann fyrir bæði stressi og spennu áður en ég fór í brautina en síðan þegar maður byrjar að þá er maður bara fókuseraður,“ sagði Kristófer. Þá sögðu þau að mikil gleði hafi verið eftir að sigurinn varð ljós á laugardagskvöldinu og að liðið hafi fagnað saman með góðri hópferð í ísbúð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka