Úreltar mælingar og slæmar aðstæður

Farþegar á leið frá borði.
Farþegar á leið frá borði. Ljósmynd/Margrét Eiríksdóttir

Slæmar aðstæður á flugbraut og ófullnægjandi snjóruðningur voru á meðal helstu ástæðna þess að flugvél Primera Air rann út af brautarenda við lendingu á Keflavíkurvelli 28. apríl 2017.

Þetta kemur fram í lokaskýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna flugatviksins, sem var metið alvarlegt.

Aðstæður á flugbrautinni höfðu versnað síðan þær voru síðast athugaðar og brautin hafði ekki verið rudd nægilega vel. Mælingar í tengslum við lendinguna voru því úreltar og ekki byggðar á réttum forsendum.

Engin slys urðu á fólki og litlar skemmdir urðu á flugvélinni sjálfri. Atvikið átti sér stað um klukkan 17.20 þennan dag.

Flugvél Primera Air á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél Primera Air á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Víkurfréttir

144 voru um borð, þar af sex úr áhöfn og 138 farþegar, og var flugvélin að koma frá Alicante á Spáni.

Þegar flugvélin lenti var flugbrautin þakin snjó og skyggnið var slæmt. Að sögn flugmannsins áttaði hann sig þegar um 300 metrar voru eftir af flugbrautinni að ekki tækist að stöðva flugvélina á brautinni. Þegar vélin var komin á enda brautarinnar beygði hann til vinstri út á möl og staðnæmdist þar.

Í skýrslu rannsóknarnefndar kemur fram að Isavia hafi ekki miðlað upplýsingum nægilega skýrt til flugstjórans um yfirstandandi framkvæmdir á flugbrautinni. Einnig þurfi að bæta samskipin á milli flugumferðarstjóra og þeirra sem annast snjóruðning, ásamt því að endurskoða þurfi hvernig upplýsingum sé miðlað frá flugvelli til flugmanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka