Sex hundruð 5 og 6 ára syngjandi leikskólabörn stigu á stokk í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag ásamt forskólanemendum í Tónskóla Sigursveins. Börnin eru nemendur í 30 leikskólum og hafa verið við æfingar frá áramótum.
Tónleikarnir eru liður í Barnamenningarhátíð. Þeir eru alla jafna haldnir á opnunardegi hátíðarinnar í Hörpu í aprílmánuði en í ár voru þeir í Ráðhúsi Reykjavíkur. Börnunum var skipt í fjóra hópa vegna samkomutakmarkana. Í fyrra var tónleikunum frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Elfa Lilja Gísladóttir tónlistarkennari segir viðburðinn hafa gengið mjög vel. Framkvæmdin hafi verið svolítið erfið fæðing enda hafi þurft að leita lausna til að halda viðburðinn með tilliti til samkomutakmarkana. Mikilvægt hafi verið að ná að halda tónleikana og leyfa börnunum að uppskera.
„Að fá dugleg, vel æfð og glöð börn sem eru stolt af sjálfum sér og fá að uppskera, að ná að fara í gegnum daginn með svona mikilli gleði og að þetta hafi tekist, það er það sem stendur upp úr,“ segir Elfa.
„Við erum búin að þurfa að breyta oft og vorum búin að skoða að hafa áhorfendur og skipta svæðinu upp. Á endanum var ákveðið að streyma viðburðinum því þetta var komið niður í að hafa eitt foreldri frá hverju barni og við vitum að fjölskyldur eru alls konar samsettar og sumir með fleira en eitt eða tvö foreldri.“
Hún segir hafa gert gæfumuninn að hafa starfsfólk í skólunum sem er þrautþjálfað og hefur komið að framkvæmd viðburðarins áður.
Börnin sungu lög eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson, rithöfund og tónlistarmann, við undirleik nemendahljómsveitar Tónskóla Sigursveins.