Akureyrarkirkja fellur frá máli á hendur ósakhæfum

Skemmdarverkin sem maðurinn vann á Akureyrarkirkju.
Skemmdarverkin sem maðurinn vann á Akureyrarkirkju. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Akureyrarkirkja hefur nú fellt niður skaðabótamál á hendur ósakhæfum manni vegna skemmdaverka sem unnin voru á kirkjunni í upphafi árs 2017 og er málinu því að fullu lokið.

Í umfjöllun RÚV í lok maímánaðar kom fram að kirkjan hefði höfðað dómsmál á hendur manni sem vann skemmdarverk á kirkjunni árið 2017. Fór kirkjan fram á tæpa 21 milljón í skaðabætur. Mál á hendur manninum var látið niður falla á sínum tíma þar sem maðurinn var talinn ósakhæfur. Samt réðst kirkjan í málsókn sem hún hefur nú fallið frá.

Afla fjár til þess að laga kirkjuna

„Í kjölfar fréttaflutnings af dómsmálinu hafði margt gott fólk samband við sóknarnefnd og lýsti vilja til að leggja henni lið ef hægt væri að finna aðrar leiðir til að mæta kostnaði við lagfæringu vegna skemmdanna,“ segir í fréttatilkynningu frá Akureyrarkirkju um málið.

Þar segir að úrbótakostnaður hafi orðið umtalsvert hærri en styrkir sem fengust til framkvæmdarinnar.

„Akureyrarkirkja er ein helsta táknmynd Akureyrar og nýtur mikils velvilja í samfélaginu. Sóknarnefnd hefur fengið til liðs við sig hóp valinkunnra einstaklinga sem hafa tekið að sér að stýra fjáröflun sem hefur það að markmiði að sóknarnefnd geti mætt verkefni sínu með liðsinni hollvina kirkjunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka