Breytt rennsli á hrauninu

Eldgos í Geldingadölum.
Eldgos í Geldingadölum. mbl.is/Einar Falur

Einhverjar breytingar hafa orðið á hraunrennslinu í Geldingadölum í nótt. Að sögn Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, virðist sem hraunrennslið hafi breytt um farveg. 

Böðvar segir að það hafi alveg eins verið búist við því að hraunrennslið færi í gegnum skarðið í nótt, það er skarðið við útsýnishólinn, en svo virtist hægja á því að sögn Böðvars. Síðan kom allt í einu mikill straumur meðfram hlíðinni suðaustanmegin við útsýnishólinn, fyrir neðan gönguleiðina.

Miðað við myndir hefur útsýnishóllinn því ekki orðið að óbrennishólma enn sem komið er.  Þegar óbrynnis- eða óbrennishólmi myndast er átt við að þar verði eftir svæði sem hraun rennur ekki yfir, eða með öðrum orðum sem ekki brennur. Til þess vísar óbrennis- eða óbrinnis- (stundum óbrynnis-), sem ætti raunar að rita með einföldu -i, enda er það dregið af hinni fornu sögn brinna (= brenna). Alþjóðlega orðið yfir þetta er kipuka sem kemur úr máli frumbyggja á eldfjallaeyjaklasanum Hawaaii að því er fram kemur á Vísindavef Háskóla Íslands.

Nokkrir staðir eru þekktir sem bera Óbrinnisnöfn (eða Óbrennis- / Óbrynnis-), til dæmis Óbrinnishólar í landi Hvaleyrar og Óbrinnisdalur á Núpafjalli í Ölfusi. Eðli málsins samkvæmt rísa svæði sem verða eftir óbrunnin inni í hrauni oft hærra en nánasta umhverfi og því er algengt að nafnberarnir séu hólar eða hólmar, en hið síðarnefnda vísar líka til þess að þeir eru umflotnir.

Böðvar segir að það sé eins og það hafi hægt aftur á þessum straumi og sennilega sé farið að renna hraun aftur í Geldingadali. Ekki er hægt að sjá þetta nákvæmlega á vefmyndavélum mbl.is og RÚV frá eldgosinu.  Ekki eru komnar neinar haldbærar skýringar á þessum breytingum.

Fólk hefur verið á gosstöðvunum í alla nótt og fylgst með hraunstrauminum samkvæmt því sem sést á vefmyndavélum. 

Líkt og undanfarið er bara virkni í einum af gígunum í Geldingadölum og virðist sem strókarnir séu ekki jafn háir úr honum og verið hefur að undanförnu. Aftur á móti eru þeir meiri um sig en áður þannig að virknin er væntanlega svipuð og áður.

Lögreglan á Suðurnesjum setti lok­un­ar­borða við hól­inn á sunnudag þannig að fólk fari ekki þangað, enda hætta á að það verði inn­lyksa. 

Suðlæg átt 8-13 m/s er á svæðinu við gosstöðvarnar. Gasmengun frá eldgosinu berst því til norðurs og hennar gæti orðið vart í byggð á norðanverðum Reykjanesskaga.

Veðurspá fyrir Fagradalsfjall

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert