Ekkert bendi til aflandstenginga í Kauphöllinni

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Skattaskjól eru nýtt af fólki sem vill fela peningana sína fyrir Skattinum og láta aðra bera uppi við sinn hlut í velferðarkerfinu,“ sagði Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar í sérstakri umræðu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum á Alþingi í dag.

Oddný var málshefjandi umræðunnar og til svara var Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. 

Hún kallaði eftir svörum við því hve stór hluti úrvalsvísitölu Kauphallarinnar er í eigu aflandsfélaga núna, vorið 2021, og hve stór hluti þeirra félaga er í eigu Íslendinga.

Oddný vísaði í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og sagði: 

Ekki leikur vafi á því að skráning eigna á aflands- og lágskattasvæðum til þess að forðast eðlileg skattskil og tryggja leynd er andstæð hagsmunum alls almennings og hefur í för með sér margvíslegan óbeinan skaða sem útilokað er að meta að fullu til fjár.

56% árið 2007

Í sömu skýrslu kom fram að í árslok 2007 voru 56% úrvalsvísitölu Kauphallarinnar í eigu aflandsfélaga.

Bjarni svaraði spurningu Oddnýjar þannig að hann hafi í aðdraganda umræðunnar óskað eftir upplýsingum um þessi mál frá Skattinum.

„Í svarinu kemur fram að ekkert bendi til aflandstenginga af hluthöfum þeirra tíu félaga sem mynda vísitöluna og ekki virðist um neitt beint eignarhald í aflandsfélögum að ræða af þeim sökum,“ sagði Bjarni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert