Ekki vilja öll hótel sóttkvíarferðalanga

Fosshótel Reykjavík er sóttkvíarhótel sem stendur og er útlit fyrir …
Fosshótel Reykjavík er sóttkvíarhótel sem stendur og er útlit fyrir að það verði eina starfandi sóttkvíarhótelið í borginni innan tíðar. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkuð hefur verið um það í dag að ferðamenn hafa gengið inn á sóttkvíarhótel Rauða krossins í Reykjavík og beðið um gistingu, án þess að hafa skráð sig í slíkt fyrirfram. Að sögn forstöðumanns sóttvarnahúsa virðist það vera sem svo að einhver hótel kæri sig ekki um að ferðamenn sæti sóttkví hjá þeim og hafi því vísað ferðamönnum sem þurfa að fara í sóttkví burt. 

Frá og með gærdeginum er ferðamönnum, jafnvel þótt þeir komi frá áhættusvæðum, heimilt að sæta sinni sóttkví við komuna til landsins utan sóttkvíarhótels. Þrátt fyrir það skráðu 17 manns sig inn á sóttkvíarhótel í dag. 

„Nú upplifum við þetta þannig að fólk sem er að koma hingað birtist bara hérna en er ekki skráð í gegnum landamærakerfið eins og áður,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa.

Storm tæmist væntanlega á morgun

17 flugvélar koma til landsins í dag en flestar vélanna sem komu í morgun komu frá Ameríku með bólusetta ferðamenn sem þurfa ekki að sæta sótkví. Seinnipartinn og í kvöld koma vélar frá Evrópu, þar af tvær frá Póllandi í kvöld, og má þá gera ráð fyrir því að gestum fjölgi eitthvað. 

Gylfi segir að innskráning gesta taki töluvert lengri tíma þegar þeir koma á hótelin án þess að vera skráðir fyrir fram. Þá sé einnig auðveldara að gæta að sóttvörnum ef fólk skráir sig áður en það mætir. 

Starfsfólk sóttkvíarhótelsins hefur orðið vart við það að fólkið sem hefur gengið inn hafi verið hafnað af öðrum hótelum. Þeir ferðamenn sem eiga ekki sögu um fyrri Covid-19 sýkingu og hafa ekki verið bólusettir gegn sjúkdómnum þurfa að fara í tvöfalda skimun við komuna til landsins með fimm daga sóttkví á milli.

„Það virðist vera vera að það vilji ekki öll hótel taka við fólki í fimm daga sóttkví þannig að fólk er kannski að koma svolítið að lokuðum dyrunum hvað það varðar,“ segir Gylfi.

Sem stendur eru tvö sóttkvíarhótel starfandi í Reykjavík, Fosshótel Reykjavík og Storm Hotel. Það síðarnefnda tæmist væntanlega á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert