„Ekki viss um að þetta fylli upp í mönnunargatið“

Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Mín fyrstu viðbrögð eru að þetta sé ekki nóg,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna í ljósi frétta um að lögregluembættið fái 900 milljónir til að mæta styttingu vinnuvikunnar.

Ríkisútvarpið greindi frá fjárveitingunni.

Fjölnir segir í samtali við mbl.is að peningnum fylgi ákveðinn léttir og að upphæðin brúi eitthvað bil. 

„Þetta er vissulega gott en ég er ekki viss um að þetta fylli upp í mönnunargatið.“

Hann segist hafa verið í sambandi við félaga sína innan sambandsins eftir fréttir kvöldsins og séu þeir allir sammála um að þetta nægi ekki fyrir mjög mörgum lærðum lögreglumönnum. 

Snýst um meira en sumarið

Í frétt ríkismiðilsins segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri að ekki sé verið að greiða fyrir meiri aukavinnu en verið að greiða fyrir styttingu vinnutímans, „þannig að við séum að jafnaði með 8 tíma vinnudag vaktavinnufólks“.

Fjölnir bendir á að inn í tölur frá lögreglustjórunum, sem þarfagreiningin byggi á, vanti til dæmis að gera ráð fyrir búnaði lögreglumanna sem sé hátt í milljón á mann og vaktaálagi eða yfirvinnu. 

„Þetta snýst um meira en bara sumarið. Auðvitað er hægt að ráða ódýrari starfsmenn í afleysingar en það leysir ekki vandann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert