„Það er mjög vond staða ef við fáum hér mjög mikla eftirspurn í ágúst eða september og fyrirtæki eru enn í hálfgerðum byrjunarörðugleikum við að koma sér af stað,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is.
Fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar voru gestir á fundi atvinnuveganefndar Alþingis í dag það sem farið var yfir stöðu ferðaþjónustunnar í Covid-19-faraldrinum. Íslandsstofa, Ferðamálastofa og markaðsstofur landshlutanna komu einnig fyrir nefndina.
„Það eru allir að leita að þessari hröðu viðspyrnu. Það þýðir að það þarf að horfa á hluti í rekstrarumhverfi fyrirtækjanna eins og hvernig við ætlum að taka á markaðssetningunni. Síðan eru fyrirtæki að lenda í ákveðnum vandamálum við að ná fólki aftur af atvinnuleysisskránni,“ segir Jóhannes.
Hann segir að huga þurfi að því núna hvernig leysa eigi mönnunarvanda og kveðst vongóður um að það takist bráðlega.
„Vonandi leysist það þegar líða fer á mánuðinn og fólk fari að koma til baka. En skuldsett fyrirtæki, sem nú hafa safnað skammtímaskuldum ofan á fjárfestingar, eiga erfitt með að vaxa hratt. Það getur því hamlað vextinum að illa gangi að koma fólki inn í störf.“
Skuldavandinn og mönnunarvandinn séu því tvær hliðar á sama peningi.
„Bandaríkjamarkaðurinn hefur tekið vel við sér. Hins vegar er Evrópumarkaður að koma seinna inn, eins og von var á, vegna stöðunnar þar. Þannig að það verður töluvert misræmi þar á eitthvað áfram. Við erum orðin heldur bjartsýnni núna heldur en fyrir mánuði á horfurnar í sumar,“ segir Jóhannes.
Hann setur um leið fyrirvara. Nú séum við stödd í ákveðnum hálfleik „eftir erfiðan fyrri hálfleik“ eins og hann orðar það. Skuldavandanum þurfi að fylgja vel eftir á næstu árum, sérstaklega næstu tólf mánuðina.