Heimilt verður að dreifa greiðslum á fasteignagjöldum af atvinnuhúsnæði í Reykjavík vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Viðauki við innheimtureglur Reykjavíkurborgar, sem samþykktur hefur verið af borgarráði, veitir heimild til þess að gera greiðsluáætlun til allt að 24 mánaða vegna fasteignagjalda sem lögð eru á atvinnuhúsnæði á árunum 2020-2022.
Þá verður gefinn afsláttur af dráttarvöxtum ef staðið er við greiðsluáætlunina. Lögveð fasteignagjalda af atvinnuhúsnæði hefur verið lengt úr tveimur árum í fjögur ár vegna fasteignagjalda á þessu tímabili.
Skilyrði fyrir úrræðinu eru að eigandi húsnæðisins glími við verulega rekstrarörðugleika vegna kórónuveirufaraldursins eða að húsnæðið hafi verið leigt út til rekstraraðila sem stendur frammi fyrir slíkum erfiðleikum.
Tekjur þurfa að hafa verið að minnsta kosti 40 prósent lægri en meðaltekjur á árinu 2019. Leggja þarf fram vottorð frá Skattinum þess efnis.