Bjarni Heiðar Halldórsson mun útskrifast með hæstu útskriftareinkunn í sögu Háskólans á Bifröst þann 19. júní næstkomandi, einkunnina 9,4. Fyrra met átti bróðir Bjarna, Svanberg Halldórsson, en sú einkunn var 9,32. Bjarni var framan af ekki mikill námsmaður og skildi við framhaldsskóla 17 ára gamall eftir að hafa fengið einkunn upp á rúman einn í stærðfræði. Bjarni sneri sér aftur að bókunum eftir þrítugt, þá nýhættur sem rekstrarstjóri Domino's í Noregi.
„Ég er ekki mikill námsmaður og mér gekk hrikalega í menntaskóla. Ég fékk 1, eitthvað í fyrsta stærðfræðiáfanganum mínum í Menntaskólanum á Akureyri. Ég bugaðist við það og fór að vinna. Þess vegna fór ég ekkert aftur í skóla fyrr en ég varð 31 árs gamall,“ segir Bjarni sem mun útskrifast með BSc. í viðskiptafræði.
Þegar Bjarni hætti í menntaskóla fór hann að vinna hjá Dominos hér á landi sem sendill. Hann vann sig upp í starfi og varð fyrst rekstrarstjóri Domino's á Íslandi og síðar í Noregi. Alls starfaði Bjarni í um 14 ár hjá fyrirtækinu. Hann bjó því ásamt fjölskyldu sinni í Osló þegar þau tóku ákvörðun um að flytja til Bifrastar svo Bjarni gæti sest á skólabekk að nýju. Þá fór hann í háskólagáttina, undirbúningsnám fyrir þá sem hafa ekki lokið framhaldsskólamenntun en hyggja á háskólanám. Í háskólagáttinni fann Bjarni námsviljann á nýjan leik og dúxaði þar, líkt og bróðir hans hafði gert nokkrum árum áður.
„Ég náði að slá einkunnina hans í háskólagáttinni og það sem hefur drifið mig áfram er smá svona bræðrarígur,“ segir Bjarni en bróðirinn átti bestu útskriftareinkunn í sögu skólans áður en Bjarni kom og bætti um betur.
Hann fékk hæstu einkunn allar annirnar í náminu og var því á Bifrastarlistanum sem hæstu einstaklingar í viðskiptafræðideild annars vegar og lagadeild hins vegar komast á. Að launum eru skólagjöld þeirra felld niður.
Eins og áður segir var viljinn til þess að leggja stund á stærðfræði lítill hjá Bjarna hér á árum áður. Það hefur sannarlega breyst í náminu á Bifröst en Bjarni sinnti aðstoðarkennslu í stærðfræði með fram námi og mun í haust kenna áfanga í stærðfræði við skólann. Spurður hvers vegna áhugi hans á stærðfræði hafi breyst eins mikið og raun ber vitni á síðasta rúma áratug segir Bjarni:
„Ég held að það sem hafi breytt mestu fyrir mig var að fara í skóla þegar ég var kominn rétt yfir þrítugt. Þegar ég var 17 ára var áhuginn bara ekki til staðar.“
Stærðfræðikennarinn sem tók á móti Bjarna í háskólagáttinni hafði fulla trú á nemendum sínum, að því gefnu að þeir væru tilbúnir í að koma til móts við hann.
„Mig langaði raunverulega að læra þetta. Ég sótti mér auka kennsluefni á YouTube, ef ég fattaði ekki eitthvað leitaði ég leiða til þess að skilja það betur. Ég hefði aldrei gert það þegar ég var 17 ára, þá hefði ég bara hætt og farið út í fótbolta,“ segir Bjarni.
„Svo veit ég ekki hvort þetta sé genetískt, en það virðist vera þannig í minni fjölskyldu að það hentar okkur ekki að fara í nám þegar við erum yngri. Við erum þrír bræður og höfum einhvern veginn alltaf farið í nám seinna, yngsti á það reyndar eftir.“
Eins og áður segir komst Bjarni í góða og vel launaða stöðu hjá alþjóðlegu fyrirtæki án þess að hafa sótt sér meiri menntun en grunnskólapróf. Hann segir að þrátt fyrir það hafi það legið þungt á honum að hafa ekki klárað meira nám.
„Mig langaði að sanna mig. Það hékk svolítið yfir mér að vera þessi gaur sem hætti í menntaskóla, að vera með þennan stimpil á mér. Ég hef alltaf vitað það að ég er klár og duglegur, ég vissi að ég gæti þetta alveg.“
Var það erfið ákvörðun að ganga út úr vel launuðu starfi og inn í háskólanám?
„Fjárhagslega var það mjög erfitt vegna þess að maður lifir í takt við það sem maður þénar. Ef einhver hefði sagt mér þá að ég þyrfti að lifa á því sem ég lifi í dag, sem er í raun ég á námslánum og konan mín að þjóna til borðs á sveitahóteli, þá hefði ég aldrei trúað því að við myndum ná endum saman. En við gerum það og okkur líður mun betur heldur en okkur gerði þá,“ segir Bjarni.
Hann segir að stór þáttur í ákvörðuninni um að flytja til Bifrastar hafi verið sá að hann sá ekki fyrir sér að halda áfram því lífi sem fjölskyldan lifði í Osló.
„Þetta var komið gott. Við vorum byrjuð að eignast börn og suma daga fór ég út átta á morgnana og kom heim ellefu á kvöldi. Ég kannski rétt sá krakkana þegar þeir voru að vakna. Það er ekki gott og mér leið ekki vel með það. Það er í raun og veru stór ástæða fyrir þessu að ég var alveg tilbúinn í að mennta mig og vinna hefðbundnara starf til þess að geta átt þetta jafnvægi á milli vinnu og heimilisins,“ segir Bjarni.
Ertu sáttur með þá ákvörðun í dag?
„Já, ég er mjög sáttur. Ég myndi ekki fara aftur í einhverja svona bilun. Það er ekki fyrir mig. Draumurinn minn hefur alltaf verið að vera með eigin rekstur. Það vonandi tekst.“
Fanney Lilja Vignisdóttir, eiginkona Bjarna, og Bjarni eiga saman tvö börn og Bjarni eitt úr fyrra sambandi. Hann segir að stundum hafi verið erfitt að leggja svo mikið í námið og fjölskyldulífið samtímis.
„Ég tileinkaði lokaritgerðina mína Fanney konunni minni. Það er ekkert að ástæðulausu, hún á mjög stóran þátt í þessu og hefur verið mjög dugleg að koma til móts við mig. Ég ákvað að demba mér í námið 100%, ég var ekki að vinna meðfram. Allur fókusinn minn var á þessu, fyrir utan þessa aðstoðarkennslu sem ég datt svo inn á. Ég finn það núna þegar ég er búinn að ég hef miklu meiri tíma fyrir krakkana, það er ákveðinn léttir sem fylgir því,“ segir Bjarni.
Hann var hagsmunafulltrúi nemenda í eitt ár og formaður Nemendafélags Háskólans á Bifröst í eitt ár. Þá hefur hann setið í svo gott sem hverri einustu nefnd á Bifröst.
„Það er margt sem ég hef ástríðu fyrir hérna innan Bifrastar. Ég hef verið mikið í því að berjast fyrir ýmsu sem snertir uppbyggingu Bifrastar,“ segir Bjarni.
Fanneyju og Bjarna þykir vænt um Bifröst og ætla þau að halda áfram að búa þar og stuðla að uppbyggingu svæðisins. Bjarni segir þau mjög hrifinn af þeim krafti og þeirri sýn sem Margrét Jónsdóttir Njarðvík, nýi rektor skólans, hefur komið með fyrir skólann og svæðið.
„Það er voða indælt að vera hérna. Maður venst því ótrúlega vel að vera hérna þó það sé engin búð á svæðinu og takmörkuð þjónusta. Við förum í tvær innkaupaferðir í mánuði og fyllum frystinn, það er bara ró og næði, ótrúlega fallegt umhverfi og ég er búinn að gleyma því hvernig það var að búa í Reykjavík eða Osló þar sem ég var alltaf úti að borða og eyða peningum í misgáfulega hluti. Hérna er ég meira með fjölskyldunni, meira með krökkunum og meira að gera eitthvað sem gefur lífinu lit,“ segir Bjarni að lokum.