Hótanirnar beindust gegn fjölskyldum og börnum

Karlmaður á miðjum aldri er í haldi lögreglu eftir að …
Karlmaður á miðjum aldri er í haldi lögreglu eftir að hafa haft í hótunum við starfsfólk RÚV og sömuleiðis lögreglufólk sem handtók hann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maðurinn sem beindi hótunum gegn RÚV í gær og var handtekinn í kjölfarið verður í haldi næstu tvo mánuðina. Það er vegna útistandandi dóms sem hann átti yfir höfði sér.

Hótanirnar voru alvarlegar, hreinar og beinar líflátshótanir, að sögn Guðmundar Páls Jónssonar lögreglufulltrúa, en þær beindust einnig gagnvart lögreglu þegar hún handtók manninn.

„Þetta voru bara líflátshótanir, gegn lögreglu og...“

Og starfsmönnum Ríkisútvarpsins þá væntanlega?

„...já, og börnum,“  segir Guðmundur við mbl.is.

Hótaði að skera lögreglumann á háls

Meðal þess sem maðurinn hótaði að gera var að skera lögreglumann á háls auk þess sem hann hótaði fjölskyldu fólks og börnum. Maðurinn er Íslendingur á miðjum aldri. 

Guðmundur segir að rannsókn málsins sé á frumstigi og því sé lítið hægt að gefa upp að svo stöddu. Það sem hann gat þó sagt var að lögregla tæki þessum hótunum alvarlega. 

Í frétt Vísis segir að maðurinn hafi hótað starfsfólki RÚV í gegnum tölvupósta, á samfélagsmiðlum og í gegnum síma. 

Fyrr í dag ræddi mbl.is við Stefán Eiríksson útvarpsstjóra og var hann fámáll. Hann staðfesti þó að öryggisgæsla í Efstaleiti, húsakynnum RÚV, hafi tímabundið verið aukin í gær. Það sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn sömuleiðis við mbl.is fyrr í dag og útskýrði að það hafi verið gert á meðan væri verið að hafa uppi á þeim sem í hótununum hafði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka