„Þetta er náttúrlega bara blanda af gleði og sorg,“ segir Hörður Áskelsson organisti, en hann átti sinn síðasta starfsdag í Hallgrímskirkju í gær.
Hörður hefur verið organisti og kantor við kirkjuna í 39 ár, allt frá því hann lauk framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982.
Mótettukórinn og Hörður, stjórnandi kórsins, kvöddu Hallgrímskirkju í gærkvöldi með því að syngja fyrir utan hana. „Við vorum svo ótrúlega heppin að fá glampandi sól á meðan við sungum og kvöddum vinnustaðinn,“ segir Hörður og bætir við að um sé að ræða stór tímamót í lífi hans en þó verði öllu að ljúka einhvern tímann.
Hörður óskaði eftir starfslokasamningi í stað þess að gera heiðurslaunasamning við kirkjuna sem honum stóð til boða. Heiðurslaunasamningurinn hefði falið í sér starfsaðstöðu og fjármuni fyrir Hörð til þess að vinna með kórum Hallgrímskirkju að þremur stórum verkefnum auk annarra viðfangsefna næstu tvö ár, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.