Samkvæmt upplýsingum frá Distica var 1983-árgangur kvenna einnig boðaður í bólusetningu með bóluefni Pfizer klukkan 18 í dag. Fyrirtækið sér um dreifingu og hýsingu bóluefna hér á landi.
mbl.is greindi frá því fyrr í dag að fjórir árgangar hefðu verið dregnir út úr bólusetningarkrukkunni. Það voru karlar fæddir árin 1987 og 1999 og konur fæddar árin 1982 og 1996.
Bóluefnið hefur bara ákveðinn endingartíma og rennur út eftir hann. Heilbrigðisstarfsmenn voru því í kapphlaupi við tímann í dag við að koma út öllu því bóluefni sem gert hafði verið tilbúið.
Alls verða um 24 þúsund einstaklingar bólusettir hér á landi í vikunni. Samtals fá um 14 þúsund bóluefni Pfizer, níu þúsund fá fyrri bólusetningu en fimm þúsund fá seinni bólusetningu.