Karlmaður var í dag dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir að hafa brotið á þremur börnum í Austurbæjarskóla haustið 2019. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða einu barnanna, sem var níu ára þegar brotið átti sér stað, hálfa milljón króna í miskabætur.
Atvikin áttu sér stað í Austurbæjarskóla í byrjun september 2019. Maðurinn lokkaði níu ára gamla stúlku upp á rishæð þar sem hann kleip hana í rassinn og strauk læri og kynfæri utanklæða.
Stúlkan leitaði þá til starfsmanns skólans strax eftir atvikið og greindi starfsmanninum frá því hvað hafi skeð. Stúlkunni var þá strax vísað til skólastjórnenda sem kölluðu til lögreglu.
Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að eftir að stúlkan lét skólastjórnendur vita fór aðstoðarskólastjórinn að leita að manninum. Hún fann hann fljótt, en hann var nokkuð áberandi klæddur í hvít íþróttaföt. Vísaði hún honum á skrifstofu skólans og sagði maðurinn henni að hann væri að bíða eftir frænda sínum sem væri nemandi við skólann. Maðurinn yfirgaf skólann stuttu síðar, þegar af honum var litið.
Daginn eftir bárust lögreglu upplýsingar um að maðurinn hefði slegið 14 ára dreng á rassinn og boðið honum fíkniefni. Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir að hafa sest þétt upp við 15 ára gamla stúlku, sett hönd á læri hennar og elt hana þar til hún stóð upp og fór til hóps af drengjum.
Maðurinn var jafnframt ákærður fyrir tvö umferðarlagabrot, en í bæði skiptin keyrði hann sviptur ökuréttindum.