Embætti landlæknis fundar nú með þeim konum sem stigið hafa fram undir nafni og greint frá slæmum aðbúnaði á öryggis- og réttargeðdeild Landspítalans.
Greinargerð frá Geðhjálp barst embætti landlæknis um slæman aðbúnað og starfshætti á öryggis- og réttargeðdeild Landspítalans og stendur nú yfir athugun á því máli.
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, segir málið í vinnslu en embættið er enn að viða að sér upplýsingum að svo stöddu.
„Þetta er náttúrulega svolítið sérstakt af því að upphaflega er málið sett fram í greinargerð og undir nafnleynd og síðan stíga konur fram sem að lýsa sinni upplifun. Þá breytist dæmið, þá viljum við fá frekari upplýsingar frá þeim,“ segir Kjartan.
Landlæknisembættið stendur nú fyrir viðtölum við starfsfólk auk þess sem geðdeildir Landspítalans hafa verið heimsóttar.
Spurður hvort Landlæknisembættinu hafi borist margar kvartanir varðandi þetta málefni segir Kjartan að aðallega sé verið að vinna út frá þeirri greinargerð sem barst. „Þetta er ekki kvörtunarmál, þetta er meira það að við erum að fá ábendingu um að þjónustu sé ábótavant og þá förum við og skoðum málið.“
Fyrr í vikunni var greint frá því að deildarstjóri öryggis- og réttargeðdeildar Landspítala væri í ótímabundnu leyfi frá störfum að beiðni stjórnenda Landspítalans. Að sögn Kjartans er það mál alfarið í höndum spítalans og hefur embætti landlæknis lítið um það að segja enda um starfsmannamál að ræða.