Samherji tekur til varna í Namibíu

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skilaði eiðsvarinni yfirlýsingu til dómstóls …
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skilaði eiðsvarinni yfirlýsingu til dómstóls í Namibíu í gær, líkt og fleiri starfsmenn fyrirtækisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eiðsvarnar yfirlýsingar starfsmanna Samherja í kyrrsetningarmáli sem beinist að félögum tengdum Samherja og sakborningum í svokölluðum Fishrot- og Namgomar-málum voru lagðar fyrir dómstól í Namibíu og birtir á vef dómstólsins í dag.

Þar sver Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, meðal annars af sér aðild að málinu og Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, vísar sök á Jóhannes Stefánsson uppljóstrara, sem Ingvar segir að hafi átt við andlega erfiðleika, vímuefnavanda og að hann hafi misst stjórn á starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Þetta er í fyrsta skipti sem Samherji eða félög tengd Samherja taka til varnar með því að leggja fram gögn í málinu.

Namibísk yfirvöld reka nú málið gegn fjölda háttsettra og lægra settra Namibíumanna sem og félögum sem tengjast Samherja. Starfsmenn Samherja eru ekki meðal sakborninga í málinu, en eins og greint hefur verið frá hefðu þeir þurft að mæta fyrir dómara í Namibíu til að vera kynnt ákæra saksóknara á hendur þeim. Þá sé enginn framsalssamningur á milli Íslands og Namibíu og því verði að teljast ólíklegt að þeir verði ákærðir.

Þorsteinn Már neitar að vera „aðal arkitekt“

Bein tengsl við sex af félögunum eru til skoðunar yfirvalda í Namibíu. Í eiðsvarinni yfirlýsingu Þorsteins Más segist hann ekki vera beinn hluthafi eða stjórnandi Esju Holding, Esja Investment, Saga Seafood, Saga investment Heinaste investment Namibia og Mermaria Seafood Namibia.

Segist Þorsteinn Már ekki hafa verið viðriðinn samninga milli Fishcor og Namgomar og neitar því að vera „aðal arkitekt“ eins og það er orðað í skjölum ákæruvaldsins. Segir hann að samningarnir hafi allir verið unnir og undirritaðir af Jóhannesi og að hann væri sá eini sem hefði mögulega brotið lög.

Segir Seðlabankamálið hafa tekið allan tíma sinn

Þorsteinn Már segir jafnframt í yfirlýsingunni að Jóhannes hafi ekki unnið undir beinni stjórn sinni allan tíma sinn í Namibíu. „Allar viðskiptaákvarðanir voru hans. Hefði hann unnið beint undir minni stjórn hefði ég rekið hann fyrir löngu síðan,“ segir í yfirlýsingu Þorsteins Más. Þá segir hann jafnframt að Ingvar hafi ekki þurft staðfestingu sína á greiðslum vegna reksturs félagsins í Namibíu.

Þorsteinn kemur í yfirlýsingunni inn á málaferli Seðlabankans á Íslandi gegn Samherja. Segir hann að málaferlin hafi tekið mikinn tíma og orku stjórnenda félagsins sem hafi komið í veg fyrir að þeir hafi getað einbeitt sér að rekstrinum í Namibíu. „Það hefði einfaldlega ekki verið tími, bolmagn eða orka fyrir mig að vera djúpt viðriðinn í fjarlægri, lítilli og frekar minniháttar starfsemi hinu megin á plánetunni.“

Telur engar líkur á að Jóhannes beri vitni

Ingvar Júlíusson segir í eiðsvarinni yfirlýsingu sinni að hann hafni öllum ásökunum. Vísar hann mögulegri sök á Jóhannes sem hann segir að sé „stjörnuvitni“ ákæruvaldsins sem hafi sjálfur játað sakir í málinu. Segir hann að án sannana eða vitnisburðar Jóhannesar sé ekkert mál gegn sér sem haldi.

Bætir Ingvar því við að hann telji engar líkur á að Jóhannes muni mæta til Namibíu til að bera vitni í málinu auk þess sem dómstóllinn myndi hafna vitnisburði hans eða gögnum. Segir Ingvar að ef Jóhannes komi til Namibíu eigi hann yfir höfði sér handtöku og ákæru, því sé næsta víst að hann muni ekki bera vitni og þar með falli málið um sjálft sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert