Smitið getur haft áhrif á reksturinn tímabundið

Enn er töluvert um að fólk sem kemur í Kringluna …
Enn er töluvert um að fólk sem kemur í Kringluna sé með grímu þrátt fyrir að grímuskylda hafi verið afnumin. Mikil áhersla er lögð á þrif á snertiflötum þar. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Smit meðal starfsmanns í H&M í Kringlunni og að allt starfsfólk verslunarinnar er komið í sjö daga sóttkví getur haft einhver áhrif á reksturinn tímabundið. Sigurjón Örn Þórðarson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir að ekki hafi verið tekin upp grímuskylda að nýju í Kringlunni en áfram sé starfað eftir sóttvarnareglum og aukin áhersla lögð á þrif og sótthreinsun snertiflata. Hann segir að margir gestir Kringlunnar beri enn grímu þrátt fyrir að afléttingu grímuskyldu.

Verslun H&M í Kringlunni er lokuð í dag og það getur tekið einhvern tíma að manna verslunina. Jafnvel verði afgreiðslutími verslunarinnar jafnvel skertur tímabundið. Smitið núna er hjá starfsmanni í versluninni en ekki er langt síðan smit kom upp meðal starfsfólks hjá H&M á Hafnartorgi. Flest smit sem hafa greinst innanlands að undanförnu tengjast því smiti. 

„Þetta er góð áminning um að hlutirnir eru ekki gengnir yfir endanlega og við erum á tánum með það að fylgja eftir öllum sóttvörnum og gæta þess að sótthreinsa alla fleti sem kallast snertifletir. Tíðnin aukin og sérstök yfirverð er í gangi hjá okkur í ljósi þessarar fréttar,“ segir Sigurjón.

Spurður út í hvort smitið sem greindist í H&M í Kringlunni sé það smit sem var utan sóttkvíar í gær segist hann ekki geta staðfest hvort viðkomandi hafi verið utan sóttkvíar en þyki ekki ólíklegt að svo sé og að þetta tengist fyrri smitum í verslun H&M. 

Sigurjón Örn Þórðarsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar,
Sigurjón Örn Þórðarsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar,
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka