Hólmfríður María Ragnhildardóttir
Kórónuveirusmitin sem greindust í gær tengjast þeim smitum sem komið hafa upp í starfshópi verslunarinnar H&M.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir rakningarteymið ekki alveg búið að ná utan um útbreiðsluna í kringum smitin sem eru til staðar núna. Hann væntir þess að sjá svipaðar tölur á næstu dögum.
Þórólfur kveðst þó ánægður með að ekki hafi fleiri smit greinst enda mikill fjöldi sýna tekinn í gær, eða um 2.000. Kemur þá í ljós í síðdegis í dag eða lok þessarar viku hvort veisluhöld síðustu helgar hafi skilað af sér fleiri smitum.
Sóttvarnalæknir er enn jákvæður gagnvart afléttingum og telur hann ekki þörf á hertum aðgerðum að svo stöddu. „Við erum náttúrulega komin með útbreiddar bólusetningar og svo er mikill fjöldi sem er að passa sig varðandi sýkingarvarnir og ég bind miklar vonir við að þetta tvennt muni ná að halda veirunni í skefjum.“
Minnir hann þó á að tveggja metra reglan sé ekki fallin úr gildi þó að grímuskylda sé ekki lengur til staðar í verslunum og víða. „Það er mjög mikilvægt að hamra á því að þetta er ekki búið og það er mikilvægt að fólk hafi það í huga að þessar reglur eru enn við lýði þó við séum að slaka verulega á.“