Heilsugæslan stefnir að því að bjóða konum sjálftökupróf fyrir leghálsskimun strax í lok þessa árs. Þetta verður gert í samræmi við skimunarleiðbeiningar embættis landlæknis sem byggðar eru á dönskum skimunarleiðbeiningum. Þessi stefna er tekin í samvinnu við rannsóknarstofu Hvidovre sjúkrahússins í Danmörku.
Heilsugæslan þakkar á vef sínum þeim sem sýnt hafa þolinmæði vegna lengri biðtíma eftir greiningu sýna en áætlanir gerðu ráð fyrir. Á vefnum kemur einnig fram að vel gangi að senda sýni til Danmerkur. Engin sýni hafa týnst eða eyðilagst á vegum heilsugæslunnar.
„Biðtíminn er nú styttri en áður og styttist með hverri vikunni sem líður,“ segir á vef Heilsugæslunnar.
Í skimunarleiðbeiningum embættis landlæknis er gert ráð fyrir þvi að kona geti óskað eftir sjálftökuprófi ef hún hefur ekki þegið boð um skimun í tvígang. Sjálftökupróf er skimunarpróf sem kona tekur sjálf heima hjá sér eða á heilsugæslunni en rannsakað á rannsóknarstofu.
„Sjálftökupróf henta flestum konum, ekki síst konum sem ekki vilja eða geta nýtt sér í hefðbundna skimun. Prófin eru pöntuð á sérstakri vefsíðu, íslenska er nú þegar eitt af þeim tungumálum sem hægt er að velja þegar pantað er. Helsti annmarki sjálftökuprófs er að aðeins er hægt að rannsaka hvort konan hafi HPV. Ef konan hefur HPV þarf að taka hefðbundið skimunarsýni. Ef konan hefur ekki HPV þá er henni boðin skimun eftir 3 eða 5 ár í samræmi við skimunarleiðbeiningar embættis landlæknis. Vonast er til að þessi nýjung verði aðgengileg seint á árinu,“ segir á vef heilsugæslunnar.
Þá segir á vef heilsugæslunnar að áður en sýni er sent á rannsóknarstofu sé það skráð í rannsóknakerfi Hvidovre sjúkrahússins, Patoweb.
„Í Patoweb þarf að skrá upplýsingar um ábendingar fyrir sýnatöku og þær upplýsingar eru byggðar á skimunarsögu í skimunarskrá landlæknis, t.d. hefðbundin skimun, eftirlit vegna fyrri breytinga og þá er skráð dagsetning og greining hennar, eftirlit eftir leghálsspeglun, eftirlit eftir keiluskurð (Test of Cure) eða eftirlit eftir krabbamein.“