Stytting vinnuviku flókin en líka nauðsynleg

Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir á blaðamannafundi í Hörpu.
Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir á blaðamannafundi í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra segja innleiðingu styttri vinnuviku mikla áskorun en jafnframt jákvætt og þarft skref í átt að betra starfsumhverfi fyrir vaktavinnufólk. Þær eru sammála um að málið sé sérstaklega mikilvægt fyrir stórar kvennastéttir í vaktavinnu.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur Landspítalinn þurft að fresta ýmsum skurðaðgerðum og skerða aðgengi vegna manneklu. Forstöðumaður hjarta- og æðaþjónustu Landspítalans segir skort á hjúkrunarfræðingum valda þessu, sem meðal annars megi rekja til innleiðingar styttri vinnuviku.

Svandís kunnug málinu 

Í samtali við mbl.is í dag sagðist Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vera kunnug málinu.

„Já, ég heyrði af þessu. Þetta er náttúrulega mikil áskorun fyrir skipulag heilbrigðisþjónustunnar en um leið er þetta gríðarlega mikilvægt skref í því að koma til móts við það vinnuálag sem hefur verið á heilbrigðisstarfsfólki og ekki síst konum.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir tók í sama streng.

„Við gerðum ráð fyrir ákveðnum fjármunum í þetta mál. Það sem nú er til umræðu er að það sé ónóg mönnun inn í þetta. Staðreyndin er nú samt sem áður sú að stytting vinnuvikunnar hefur verið nefnd sem eitt mikilvægasta tækið til þess að auðvelda mönnun á vöktum í ljósi þess að það hefur verið erfitt að fá fólk til starfa í vaktavinnu,“ sagði Katrín eftir ríkisstjórnarfund í dag.

„Þegar við horfum til þess hvað stéttarfélögin hafa verið að segja hafa þau verið að tala fyrir þessu sem einu mikilvægasta umbótatækinu.“

Getur auðveldað mönnun vaktavinnustétta

„Ég held að það sé ekki skrítið að þegar kemur að svona stórum breytingum taki það tíma að afgreiða innleiðingu með fullnægjandi hætti. Ég er samt á því máli að þetta sé eitt mikilvægasta tækið til að auðvelda mönnun vaktavinnustétta til lengri tíma.

Svo má ekki gleyma því að meirihlutinn af vaktavinnufólki eru mjög stórar kvennastéttir. Það hefur lengi verið til umræðu hvernig hægt væri að bæta þeirra kjör og ég lít á þetta sem lið í því.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Eggert Jóhannesson

Lögreglumenn áhyggjufullir

Stjórn Landsambands lögreglumanna sendi frá sér ályktun í gær þar sem hún lýsti miklum áhyggjum af manneklu hjá lögreglunni og þá sérstaklega eftir að stytting vinnuvikunnar tók gildi.

Ríkisstjórninni hafi mátt vera ljóst að ráða þyrfti fleira starfsfólk þegar samið var um styttingu. Einnig þyrfti nú að leggja meira fé í menntun lögreglumanna þar sem hlutfall menntaðra lögregluþjóna væri orðið hættulega lágt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka